Fyrstu tilraunir til jarðboranna á Íslandi voru á árunum 1755-1756. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru upphafsmenn og boruðu þeir þrjár holur, eina holu í Laugarnesi og tvær í Krýsuvík. Þeir félagar lentu í því að gufa og leirgos fékkst úr seinni holunni í Krýsuvík og nýr hver myndaðist, þeir þurftu því að stöðva borun á þeirri holu.
Fleira fólk, meira vatn
Um aldamótin 1900 óx Reykjavík mikið, sem varð til þess að afla þurfti meira neysluvatns fyrir bæjarbúa. Því var byrjað að bora á nýjan leik. Ráðamenn í bænum vildu kanna kosti vatnsöflunar í grennd við Reykjavík áður en leitað yrði lengra. Var því ákveðið að bora eftir köldu vatni við Öskjuhlíð og niður undir Vatnsmýrinni.
Að sjálfsögðu var leitað að reynslumiklum manni og var Marius Knudsen, einn þekktasti verktaki á þessu sviði í Danmörku fenginn í verkið. Hann sendi til landsins aðstoðarmann sinn að nafni Hansen sem hóf borun eftir vatni þann 1. október árið 1904 og hélt stöðugt áfram í tæplega heilt ár. Þegar komið var niður á 67,5 metra dýpi kom í ljós að vatnið var snarpheitt og hentaði því illa til drykkjar.
Gullleitarfélag stofnað!
Hansen taldi sig hafa séð gullslit eða skán á bornum. Hann hafði áður starfað við gullgröft í Ameríku og taldi sig fullvissan um að hér væri gull að finna. Bæjarstjórnin fann sig knúna til að rannsaka málið betur og vildu útvega betri bor í verkið. Gullleitarfélagið Málmur var stofnað haustið 1905 og bærinn var einn hluthafa í félaginu. Hins vegar fannst ekki hentugur bor í verkið og var því ekki borað fyrr en árið 1907 þegar almennilegur höggbor kom til landsins. Hann muldi undir sig sem þýddi að dæla þurfti mulningnum upp úr holunni. Einhverjir töldu sig hafa orðið varan við gullvott en fjármagn kláraðist þannig ekki var hægt að fara í frekari rannsóknir.
Nýtt gullleitarfélag
Árið 1910 varð Málmur gjaldþrota en gullið í Vatnsmýrinni gleymdist ekki. Tólf árum síðar var stofnað nýtt hlutafélag, Málmleit hf. sem sá um námuleit. Verkfræðingurinn Helgi H. Eiríksson var fenginn til að útvega bor erlendis frá og hafa eftirlit með borun. Keyptur var stálhaglbor sem var snúningsbor og mun hraðvirkari en höggborinn sem áður hafði verið notaður. Boraðar voru tvær holur syðst við Laufásveg og var dýptin um 54 metrar. Þessar tilraunir báru engan árangur og var borunum hætt haustið 1924 enda fé hlutafélagsins þrotið eftir tveggja ára rannsóknir.
Samsæriskenningar
Ýmsar kenningar komu fram varðandi hvað hafi komið gullleitarævintýrinu af stað. Einhverjir grunuðu Hanson um að hafa látið gull eða annan málm ofan í holuna. Aðrir töldu að gullliturinn á bornum hefði komið vegna látúnshylkja sem notuð voru við sprengingarnar. Hvort sem var, þá hafði gullleitin áhrif á lóðaverð í bænum enda töldu menn að dýr málmur gæti leynst víðar en aðeins í Vatnsmýrina. Því hófu sum gullgröft á lóðum sínum.
Heldur þú að það leynist gull undir fótum okkar eða er ferskvatn kannski bara hið íslenska gull?