1921

Upphafið

Árið 1906 keypti Reykjavíkurborg Elliðaárnar til vatnsvirkjunar og þremur árum síðar var Vatnsveita Reykjavíkur stofnuð. Þann 27. júní 1921 varð bylting í lífsgæðum Reykvíkinga þegar Elliðaárstöð var gangsett. Ljós kviknuðu, eldavélar hitnuðu og vélar púuðu af stórauknum krafti. það er ekki ofsagt að þá hafi nútíminn hafið innreið sína í borginni, sem breytti Reykjavík úr fámennu þorpi í nútímaborg. Við þessi merkilegu tímamót komu Kristján X Danakonungur og Alexandrina drottning í opinbera heimsókn og vígðu Elliðaárstöð.

1921

Framsýn hjón

Steingrímur Jónsson er fyrsti rafmagnsstjórinn í Reykjavík og brautryðjandi í raforkumálum á Íslandi. Á þeim tíma voru Íslendingar að stíga sín fyrstu skref við virkjun náttúruaflanna, vatnsorkunnar og jarðvarmans. Undir hans forystu voru stigin risaskref sem miðuðu að því að koma Íslandi í röð iðnvæddra ríkja. Steingrímur var rafmagnsstjóri frá 1921 – 1961. Steingrímsstöð í Sogi, sem tekin var í notkun árið 1960, var nefnd í höfuðið á honum. Lára Árnadóttir eiginkona Steingríms átti jafnframt beinan og óbeinan hlut í þróun raforkumálum landsins og uppbyggingu með þátttöku sinni í félags- og mannúðarmálum á þeim vettvangi, ásamt því að eiga ríkan þátt í skógræktarstarfinu í Elliðaárdalnum.

1920-1931

Þrýstivatnspípur

Frá Árbæjarstíflu voru lagðar tvær þrýstivatnspípur niður að Elliðaárstöð, sú fyrri 1920 og önnur á árunum 1931 til 1932. Þessar pípur voru úr tréborðum sem haldið var saman með járngjörðum. Árið 1978 var sett ein pípa í stað hinna tveggja. Sú pípa er einnig úr timbri. Hún er að hluta ofanjarðar, en hulin jarðvegi sem myndar lágan grasi vaxinn hrygg meðfram ánum að norðanverðu.

 

1936

Bylting inn á heimilum

Rafvæðingin hafði gríðarleg áhrif á daglegt líf fólks í borginni og þá ekki síst á líf þeirra kvenna sem sinntu heimilisstörfum. Til þess að flýta fyrir orkuskiptunum í Reykjavík bauð Rafmagnsveitan fólki að kaupa Rafha eldavélar á afborgunum með rafmagnsreikningnum enda um stóra fjárfestingu að ræða. Líklega voru það fyrstu raðgreiðslurnar. Það skýrir algengi Rafha eldavéla á reykvískum heimilum. Rafha var íslensk framleiðsla og samþykkti Alþingi að verja 50 þúsund krónum úr ríkissjóði til stofnunar raftækjaverksmiðju til að flýta fyrir fyrri orkuskiptunum.

 

1937

Aukin eftirspurn eftir rafmagni

Fljótlega varð ljóst að Elliðaárstöð myndi ekki ein og sér geta annað eftirspurn eftir rafmagni borgarbúa. Því var farið að horfa í kringum sig eftir nýjum virkjanakostum og augu manna beindust að Soginu, sem er afrennsli Þingvallavatns. Reykjavík keypti vatnsréttindi jarðarinnar Bíldfells árið 1917 en mat norsku verkfræðinganna, sem falið hafði verið tillögugerð um virkjun Elliðaánna, var að ekki væri hagkvæmt að virkja í Soginu fyrr en íbúar Reykjavíkur væru orðnir 30 þúsund.

Mikil fólksfjölgun gerði það að verkum að því marki varð náð mun fyrr en ætlað var og árið 1927 var rafmagnsstjóra falið að gera áætlun um virkjun Efra Sogs. Framkvæmdir hófust þó ekki fyrr en árið 1935 og rafmagni úr Ljósafossvirkjun var hleypt á veitukerfið í október 1937. Háspennulína hafði verið lögð frá virkjuninni að aðalspennistöð við Elliðaár tveimur árum áður og þaðan var lagður jarðstrengur að aðveitustöð við Austurbæjarskóla. Spennistöðin, eða straumskiptistöðin, stendur við Rafstöðvarveg 14 og er friðlýst.

1948

Toppstöðin

Þrátt fyrir framkvæmdir í Soginu gerði rafmagnsskortur fljótt vart við sig, enda eftirspurnin mikil. Árið 1946 hófust framkvæmdir við varastöð við Elliðaár og tók hún til starfa árið 1948. Um var að ræða olíu- og kolakynta gufuaflsstöð sem fyrst og fremst yrði gripið til þegar álagið væri mikið; hún átti að takast á við toppana í raforkunotkun. Af þeim sökum var stöðin nefnd Toppstöðin eða jafnvel bara Toppa í daglegu tali. Hún var í mikilli notkun til ársins 1953 þegar Írafossvirkjun í Sogi tók til starfa, en svo dró úr notkun hennar. Toppa gegndi þó áfram hlutverki sínu sem varastöð og kom oft að góðum notum, en því hlutverki hennar lauk að mestu árið 1981.

1951

Skógrækt

Árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í Árhólmanum í Elliðaárdal. Var það að frumkvæði og framsýni starfsfólks Rafmagnsveitunnar að gefa til baka til náttúrunnar eftir að hafa fengið að virkja hana. Með reglulegum skógræktarferðum starfsfólks breyttist Elliðaárdalurinn úr hrjóstrugum hólma í gróið útivistarsvæði og náttúruperlu þar sem nú þrífst fjölbreytt plöntu- og fuglalíf.

2014

Endalok rafmagnsframleiðslu í Elliðaárdal

Um langt skeið var þessi elsta virkjun Orkuveitunnar eingöngu starfrækt sem varaaflsstöð og frá henni kom innan við 1% af raforkuframleiðslu landsins. Nú skiptir húsaþyrpingin við Elliðaárstöð um hlutverk. Í stað þess að virkja rafmagn, sem aðrar nútímavirkjanir sjá nú um að gera ætlum við að skapa upplifun á nýjum áfangastað í þessari einstöku náttúruperlu í hjarta Reykjavíkur og virkja fólk, hugvit og nýsköpun.

2022

Ný Elliðaárstöð opnar

Í ársbyrjun 2019 var haldin hugmyndasamkeppni um Elliðaárstöð, sögu- og tæknisýningu á rafstöðvartorfunni í Elliðaárdal. Hönnunarhópurinn Terta bar sigur úr bítum. Innblástur vinningstillögunnar er framsýni fyrri tíma og ósýnileg virkni veitukerfanna. Hönnun er látlaus og einföld, næstum heimilisleg. Lagt er upp úr því að nýta það sem fyrir er á svæðinu í samhljóma við náttúruna.

Húsaþyrping Elliðaárstöðvar mun opna í áföngum á næstu mánuðum og hlökkum við til að taka vel á móti gestum og bjóða upp á fjölbreytta og fræðandi upplifun í dalnum.