Klukkutímalangur göngutúr um Elliðaárdalinn getur opnað augu fólks fyrir rafmagnsframleiðslu, jarðvarmavirkjun, skógrækt og iðnsögu. Hér er stiklað á stóru í sögu veitnanna í dalnum.

Fráveita – 1902

Fyrsta skólplögnin sem vitað er til að lögð hafi verið neðanjarðar í Reykjavík lá frá Landakoti og eftir Ægisgötu niður að sjó. Opnar rennur í götum voru áfram við lýði um hríð. Góð fráveita er mikilvægt heilsufarsmál og almannaþjónusta sem fáir geta hugsað sér að vera án.

Starfsemi fráveitu felur í sér að flytja frárennsli heimila og atvinnustarfsemi, regnvatn eða bráðinn snjó út í viðtaka, með viðkomu í hreinsistöð þar sem við á. Það er mikið verk að tryggja að rekstur fráveitukerfa sé í góðu lagi og fáir sem gefa því gaum í amstri dagsins.

Hér má nálgast bókina Cloacina um sögur fráveitunnar.

Veitur annast fráveitukerfið í Reykjavík.  Meira hér 

 

Vatnsveita – 1909

Sumarið 1909 var skrúfað frá brunahana við Laugaveg til marks um að vatnsveita væri komin til Reykjavíkur. “Það kemur allt með kalda vatninu” er orðasamband sem margir þekkja og er líklegt að það sé frá þeim tíma sem byrjað var að leiða kalt vatn í hús. Mikil framför fylgdi því að fá rennandi vatn í hús og hagur fólks batnaði verulega. Hreint vatn er ein af undirstöðum heilbrigðis. Fyrsta vatnstökusvæði borgarinnar var í Elliðaánum, en þar var tekið yfirborðsvatn í nokkra mánuði áður en grunnvatnsupptakan hófst í Gvendarbrunnum sem þótti heilnæmari. Pípurnar úr Gvendarbrunnum voru lagðar niður eftir Elliðaárdalnum. Ýmis mannvirki er að finna í Elliðaárdalnum tengd vatnsveitunni eins og Vatnsveituvegur og Vatnsveitubrú.

Veitur sjá um að dreifa kalda vatninu í Reykjavík og víða.  Meira hér 

 

Rafveita – 1921

Elliðaárstöð var formlega tekin í notkun árið 1921 þegar Kristján X og Alexandrina drottning Danmerkur ræstu fyrstu vélar stöðvarinnar. Elliðaárstöð var vatnsaflsvirkjun og markaði upphaf fyrstu orkuskiptanna á Íslandi og breytti Reykjavík í nútímaborg og heimilishaldi borgarbúa, þar sem hægt var að leggja af hlóðir og nýta rafmagn til eldunar. Með tilkomu Elliðaárstöðvar var ákveðið að tengja öll hús í Reykjavík og Rafmagnsveita Reykjavíkur varð til. Afl Elliðaárstöðvar var 3,16 MW, til að setja í samhengi þá er afl Fljótdalsstöðvar 690 MW.

Árið 2015 lauk rafmangsframleiðslu Elliðaárstöðvar þegar þrýstivatnspípan við hana bilaði. Merkilega saga hennar mun áfram vera sögð í Elliðaárstöð en húsið er friðað og orðið að safngripi. Hönnuðir byggingarinnar voru Aage Broager Christensen og Guðmundur Hlíðdal.

Orka náttúrunnar rekur jarðhitavirkjanir  á Hellisheiðinni og Nesjavöllum ásamt Andarkílsvirkjun. Meira hér 

Veitur sjá um dreifingu á rafmagni.  Meira hér 

Hitaveita – 1930

Nafn Reykjavíkur minnir okkur á hitann sem kraumar undir fótum okkar.  Vegna legu Íslands á mótum tveggja jarðskorpufleka er Ísland ríkt af jarðhita. Rétt austan við höfuðborgina liggur virkt gosbelti með kröftugum háhitasævðum sem nýtt eru í virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði. Upphaf annarra orkuskipta á Íslandi má rekja til þess þegar Laugarveitan var tekin í notkun árið 1930. Í Elliðaárdalnum er einnig afkastamikil jarhitasvæði sem hafa verið nýtt frá miðri síðustu öld. Borholur í dalnum eru staðsettar í rauðum skúrum á milli göngu- og hjólastíga og margir eiga leið hjá þeim á ferð sinni um dalinn. Nær öll húshitun á Íslandi í dag er byggð á endurnýtanlegum orkugjöfum, fyrst og fremst jarðhita.

Veitur sjá um dreifingu á heitu vatni á höfðuborgarsvæðinu.  Meira hér 

Orka náttúrunnar framleiðir 50% af  heitu vatni sem notað er á höfuðborgrarsvæðinu í Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallarvirkjun. Heita vatnið er selt til Veitna sem dreifir því til neytenda og notað til húshitunar og í sundlaugar sem og ýmissi atvinnustarfsemi.  Meira hér 

Gagnaveita – 1999

Tilkoma ljósleiðara olli byltingu í samskiptatækni. Ljósleiðarar eru grannir þræðir úr gleri eða plasti, þunnir eins og mannshár, sem eru búnir þeim eiginleikum að geta leitt ljós frá einum stað til annars. Fyrsti ljósleiðarastrengurinn i fjarskiptaneti OR lagður árið 1999.  Í dag tryggir Ljósleiðarinn heimilium og fyrirtækjum háhraða nettengingu um allt land.

Upplýsingar um Ljósleiðarann má finna hér.