Hrollvekjandi óperuganga
Deyjandi kvennabósi, vofur og afturgöngur voru meðal óhugnanlegra vera sem birtust á Óperuhrolli í Elliðaárstöð. Í tilefni af hrekkjavöku og Óperudögum í Reykjavík var haldin óperuganga í Elliðaárdal. Gangan hófst í Hinu húsinu þar sem fjórar vofur birtust og sungu nokkur hryllileg lög. Að því loknu tóku hrollvekjandi trúðar við og leiddu gönguna að Rafstöðinni. Þar hafði verið útbúin sannkölluð draugastöð þar sem ýmsar verur brugðu á leik og söng.
Leið veranna lá að Heimili veitna þar sem þær sungu ýmist eða bjuggu til hrollvekjandi hljóm um allt hús. Hræðslusvip mátti sjá á fólki, jafnt ungum sem öldnum. Þrátt fyrir hræðslu, skemmti fólk sér við þessa ýmist óhugnanlegu og skemmtilegu söngatriði. Að lokum var farið út í gömlu skemmuna, þar sem uppvakningar voru með söngatriði sem innblásið var af Mexíkósku hátíðinni, Dagur hinna dauðu. Á þeirri hátíð er hefðin að gefa sér tíma í að heiðra þá liðnu en óhætt er að segja að hinir dauðu hafi verið heiðraðir á eftirminnilegan hátt þetta óhugnanlega kvöld í Elliðaárstöð.
Fyrir forvitna er hægt að heyra hljóðdæmi hér að neðan og sjá hrollvekjuna sem umlék Rafstöðina.
Frétt 30. október á Stöð 2.