STEM, STEAM og STREAM menntun í Elliðaárstöð
Í Elliðaárstöð gerum við hið ósýnilega sýnilegt og fræðum gesti um innviðina sem halda borginni okkar gangandi.
Stórar áskoranir kalla á samvinnu margra
Leiðarljós okkar í fræðslu er STEAM og STREAM menntun en hún samþættir vísindi (e. science), tækni (e. technology), verkfræðihugsun (e. engineering), listir (e. arts) og stærðfræði (e. mathematics) auk afþreyingar (e. recreation).
STREAM verkefni taka fyrir raunveruleg viðfangsefni og nota nemendur skapandi aðferðir til að finna lausnir á vandamálum.
STEAM og STREAM menntun í Elliðaárstöð
Markmið okkar með STREAM nálgun í fræðslu er að auka þá fræðilegu og hagnýtu þekkingu og hæfni sem til er í dag til að takast á við áskoranir sem tengjast orku, auðlindum og umhverfismálum.
Samfélagslega mikilvæg lausnaleit
Til að halda borginni okkar gangandi hefur fjölmargt fólk unnið þrekvirki á sviðum holræsagerðar og fráveitu, vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu. Slíkar framkvæmdir báru vott um mikla framsýni þegar Reykjavík var að breytast úr sveit í borg. Voru þetta farsæl framfaraskref fyrir íslenskt samfélag. Flókin vandamál kalla á samvinnu fólks úr ólíkum geirum og því er STEAM nálgun mikilvæg í dag.
Hvaða áskorunum stöndum við frammi fyrir í dag?
Helsta hlutverk Orkuveitu Reykjavíkur er að nýta auðlindir á sjálfbæran og hagkvæman hátt og tryggja heimilum, fyrirtækjum og stofnunum aðgang að nauðsynlegum lífæðum samfélagsins, heitu og köldu vatni, raforku og fráveitu.
Við getum valið þá framtíð sem verður. Það má segja að það séu margar framtíðir í boði en besta framtíðin er sú þar sem mannkynið býr í sátt við náttúru og umhverfi og hefur allt sem það þarfnast án þess að ganga á auðlindir komandi kynslóða.
Þjálfum sköpunarkraftinn og finnum lausnir
Sköpunarkrafturinn er endurnýjanleg auðlind. Með því að þjálfa heilann og iðka sköpunarkraftinn, eykst hann. Eitt af einkennum STREAM menntunar eru hönnunaráskoranir. Þá fá gestir í hendurnar áskorun eða vandamál sem þarf að leysa. Notast er við skref hönnunarhugsunar þegar leysa á vandamálið. Þetta er hæfni sem er mikilvæg og verður mikilvægari í framtíðinni.
Undirbúum gesti fyrir framtíðina
Stór hluti þeirra starfa sem ungmenni dagsins í dag koma til með að vinna hafa enn ekki verið fundin upp. Eins verða mörg störf aflögð vegna tækniframþróunar.
Skapandi og skemmtilegar hönnunaráskoranir þjálfa fólk í að takast á við breytingar og taka þátt í þeirri nýsköpun sem framþróun í heiminum þarfnast.
Vertu með
Í Elliðaárstöð er boðið upp á fjölbreytta dagskrá viðburða og skólaheimsókna. Fylgið okkur á samfélagsmiðlum til að fá nýjustu fréttirnar beint í æð.
Fjölbreytt dagskrá í Elliðaárstöð
Í Elliðaárstöð fá gestir tækifæri til að fræðast um orku, vísindi og merkilega sögu svæðisins en einnig njóta fallegrar náttúru dalsins og sköpunarkraftsins sem í henni býr.
Boðið er upp á viðburði, námskeið og ýmiskonar upplifun allan ársins hring.
Skoða dagskráSkólar í Elliðaárstöð
Í Elliðaárstöð fræðum við ungmenni um vísindi, orku og auðlindir.
Við skoðum viðfangsefnin á þverfaglegan hátt og veltum því fyrir okkur hvernig hlutirnir voru í fortíðinni og hvernig þeir verða mögulega í framtíðinni. Laus pláss í skólaheimsóknir eru auglýst í upphafi hverrar annar. Fylgstu með og bókaðu pláss!