Jólastund gaf gull í mund
Jólasveinaleit, piparkökuföndur og lifandi tónlist var meðal þess sem gestum á Jólastund í Elliðaárstöð var boðið upp á. Fjölskyldur komu saman til samverustundar þar sem jólaandinn var svo sannarlega til staðar, jólaljósin skörtuðu sínu fegursta og örþunnt lag af fönn umlukti svæðið.
Á veitingastað Elliðaárstöðvar var boðið upp á að skreyta piparkökur og mátti sjá þó nokkrar fallegar skreytingar. Bóas Gunnarsson flutti þekkt jólalög meðan fólk gæddi sér á heitu kakói, piparkökum og mandarínum. Einnig voru Hugmyndasmiðirnir, Svava Björk Ólafsdóttir og Ninna Þórarinsdóttir á svæðinu og kynntu Fjölskyldusmiðjurnar.
Jólasveinaleit fór fram í rafstöðinni en til þess að leysa þrautina þurfti að finna þrettán jólasveina og stafina sem þeir höfðu að geyma. Þá var hægt að leysa kóða og fá verðlaun. Einnig var opið í Heimili veitna þar sem boðið var upp á að versla jólagjafir í Pop-up verslun Elliðaárstöðvar og líta inn á sýninguna, Ósýnilegt verður sýnilegt. Útilistaverkið, Uppljómun vakti verðskuldaða athygli gesta og voru mörg sem nýttu sér gróðurhúsaljósin til að endurnærast.
Einstaklega vel heppnuð samverustund í jólalegu umhverfi Elliðaárstöðvar.