Rætur trjánna endurspeglaðar í Growthscape

Líkt og rætur trjánna hlykkjast með ófyrirsjáanlegum hætti gerir listaverkið, Growthscape í Skrúðgarðinum, slíkt hið sama. Verkið er eftir listamanninn Emil Gunnarsson og er útskriftarverk hans úr meistaranámi í myndlist frá Listaháskóla Íslands.
Hvað lærði tréð af jörðinni til þess að geta talað við himininn?
Verkið vísar til trjáróta sem teygja anga sína í allar áttir. Ræturnar eru grunnurinn að lífi trésins, þær sækja vatn og næringarefni sem nauðsynleg eru fyrir vöxt þess. Í þessu ferli byggir tré upp styrk sinn og mótar ferðina fram á við. Ræturnar skapa ósýnileg tengsl, bæði innan skógarins og milli trjáa.
Listamaðurinn sem skapar með samspil manns og náttúru í huga
Emil Gunnarsson (f. 1998) hefur áður verið með listaverk í Skrúðgarðinum en síðustu tvö sumur var viðarskúlptúrinn „Þinn taktur“, sem prýddi Skrúðgarðinn. Hann vakti verðskuldaða athygli. Emil lærði við Maryland Institute College of Art og lauk BA gráðu í skúlptúr og umhverfislistum frá Glasgow School of Art árið 2023.
Með gagnvirkum skúlptúruppsetningum sínum og gjörningum hvetur Emil til sjálfskoðunar, vitundar um líkamann og íhugunar á samspili náttúrulegs og félagslegs umhverfis. Hann notar listina sem verkfæri til að skapa djúpstæð tengsl milli einstaklinga og umhverfis þeirra.
Við hvetjum öll til þess að kynna sér verkið og upplifa það, hvort sem það er í leik eða í rólegheitum.
„Ræturnar skapa ósýnileg tengsl, draga styrk úr sögunum sem þær geyma og sameiginlegum anda skógarins. Þær næra nútíðina á meðan þær móta ferðalagið,“