Hver var Elliði?
Í Elliðaárdalnum eru margar söguminjar og örnefni, sagan segir að Elliði, sá sem Elliðaárnar draga nafn sitt af hafi ekki verið maður heldur skip landnámsmannsins Ketilbjarnar hins gamla Ketilssonar sem kom til Íslands frá Noregi.
Í Landnámabók segir að Ketilbjörn hafi komið til landsins þegar land var víða byggt með sjó og lent skipi sínu, Elliða, í ósum þeirra áa sem síðan heita Elliðaár. Hann nam síðan allt Grímsnes, Laugardal og hluta af Biskupstungum.
Myndin hér að ofan er hinsvegar af Kristjáni X konungi Dana og Íslendinga, með veiðistöng við Elliðaárnar árið 1921, sennilega í sömu ferð og hann vígði rafstöðina við Elliðaár. Við hlið hans er Pétur Ingjaldsson slökkviliðsstjóri sem heldur á tveimur löxum.