Hitaveitu frá Reykjavík til Rómar
Austurbæjarskóli og nokkur hús við Bergþórugötu voru fyrstu húsin í Reykjavík hituð með vatni úr Þvottalaugunum í Laugardal, svokallaðri Laugaveitu. Var það upphaf hitaveitu í Reykjavík árið 1930. Lengd leiðslunnar var 5.150 metrar sem jafngildir u.þ.b. beinni loftlínu frá Elliðaárstöð til Hallgrímskirkju.
Um aldamótin var dreifikerfi hitaveitunnar orðið 1.300 km sem er um það bil eins og að keyra hringinn í kringum landið.
Árið 2023 er dreifikerfi Hitaveitu Reykjavíkur 3.300 km. Til samanburðar þá jafngildir sú vegalengd beinni loftlínu á milli Elliðaárstöðvar og Rómarborgar á Ítalíu.
Jarðhitinn notaður á Íslandi frá landnámi
Á Íslandi notum við jarðhitann í sundlaugar, snjóbræðslu, fiskeldi, iðnað og gróðurhús en mest af öllu til húshitunar.
Þó að hverir hafi verið frekar óvinsælir á fyrri öldum vegna slysahættu þá hefur jarðhiti á Íslandi verið notaður til baða og þvotta frá landnámsöld.
Um miðja átjándu öld talaði Eggert Ólafsson, náttúrufræðingur, um að nota mætti hveri til að sjóða mat og þvo þvotta. Þegar fornleifafræðingarnir Guðmundur Ólafsson og Þorkell Grímsson voru að grafa vegna húsbygginga hjá Snorralaug þá fannst gufuleiðsla frá hvernum Skriflu í Reykholti sem leiddi í átt að bænum.
Hiti úr hver, beint inn í stofu um aldamótin 1900
Fyrstur Íslendinga til að leiða heitt vatn í gegnum leiðslur til húshitunar var Stefán B. Jónsson. Árið 1908 leiddi hann pípu frá Amsterdamshver í hús sitt sem var í Reykjahverfinu í Mosfellssveit. Pípan var ekki einangruð og fór vatnið úr 75°C niður í 60°C á leið sinni. Hann bætti leiðsluna árið 1927, breikkaði hana og einangraði með gjalli til að draga úr varmatapi.