Fjölskylduvænt samfélag

Veitingastaðurinn mun starfa allan ársins hring og er ætlað að þjóna fjölbreyttum hópi gesta – allt frá ævintýragjörnu útivistarfólki til nærsamfélagsins og fjölskyldna. Elliðaárdalurinn er náttúruperla og fjölsóttasta útivistasvæðið í Reykjavík. Dalurinn á sér ríka sögu og fjölbreytt útivist er stunduð þar allan ársins hring. Fjölmenn íbúahverfi liggja að dalnum; Árbær, Breiðholt, Fossvogur og Vogabyggð er að rísa ásamt því íbúabyggð á Ártúnshöfða áformuð. Í bakgarði veitingastaðarins er vatns- og leiksvæði, sem gerir staðinn kjörinn fyrir fjölskyldur. Tenging staðarins við þetta fallega náttúrusvæði og fjölbreytt mannlíf býður upp á einstakt tækifæri til að skapa líflegt, hlýlegt og fjölskylduvænt samfélag.

Fjölbreytt dagskrá og menningarlíf í Elliðaárstöð

Elliðaárstöð hefur, á skömmum tíma, fest sig í sessi sem nýr áfangastaður þar sem orka, náttúra og menning mætast. Til að auka og þjónusta mannlíf í dalnum er staðið fyrir fjölda viðburða allan ársins hring, en auk þess er boðið upp á vísindamiðlun og fjölbreytta fræðsludagskrá fyrir fróðleiksfúsa á öllum aldri. Árið 2024 hafa yfir 150.000 gestir lagt leið sína í Elliðaárstöð og yfir 50 viðburðir hafa verið haldnir í samstarfi við skapandi aðila úr listum, vísindum, íþróttum og útivist. Elliðaárstöð tekur jafnframt þátt í menningarhátíðum borgarinnar, eins og Vetrarhátíð, Safnanótt, Barnamenningarhátíð og HönnunarMars.

Vertu hluti af framtíðinni í Elliðaárdal

Í lok nóvember er áformað að ljúka endurnýjun á stærsta húsi svæðisins; Straumskiptistöð. Í þeirri starfssemi verður gestastofa, fundarrými, fundarsalir, fræðslu- og viðburðarými. Þar verður tekið vel á móti gestum Elliðaárstöðvar og viðskiptavinum Orkuveitunnar með upplýsingum og fræðslu um orkuna, veiturnar og Elliðaárdalinn. Boðið verður m.a. fjölbreytta viðburði, sýningar og fræðslu um orkulindirnar, nýtingu náttúrugæða, tæknina, söguna og framtíðarlausnir.