Lengsta vatnsrennibraut landsins?

Aðventudagatal Elliðaárstöðvar býður upp á fróðleik, skemmtun og samveru til að njóta með vinum, fjölskyldunni eða með sjálfum sér.
Búðu til æsispennandi vatnsrennibraut
Finndu þér flösku helst úr plasti og komdu út að leika!

Þú þarft:
Flösku, helst úr plasti svo hún brotni ekki.
Vatn
Matarlit
Snjó
Brekku
Hvernig
Fylltu flöskuna af vatni. Settu dropa af matarlit út í vatnið og komdu út að leika. Það er best að finna góða brekku eða hól, þú býrð til braut fyrir flöskuna með því að þjappa snjóinn niður. Brautin þín getur beygt eða farið inn í undirgöng. Það fer allt eftir því hve mikill snjór er úti og hve mikið pláss þú hefur.
Ef þú ert með fleiri en eina flösku getur þú mælt hver kemst lengst, eða tekið tímann og séð hver kemst hraðast! Þú getur líka prófað að breyta þér í dælu sem ýtir á eftir flöskunni og sjá hvað gerist þegar flaskan fær kraft frá þér.
Fræðslumoli
Við fáum vatnið í kranann heima eftir flóknu lagnakerfi sem hlykkjast um alla borgina. Þetta er einskonar æðakerfi sem er falið undir götunni og tengir hús borgarinnar saman. Lagnirnar þurfa að halla rétt svo vatnið komist alla leið heim í kranann til þín. Það þarf marga til að vinna við gerð svona kerfis. Lagnahönnuði, pípara, verkfræðinga, gröfustjóra og annað iðn- og verkafólk.
Vatnið í Reykjavík kemur að miklu leiti frá Gvendarbrunnum sem eru í Heiðmörk. Gvendarbrunnar eru á vatnsverndarsvæði sem þýðir að þar gilda strangar reglur um hvað má gera á svæðinu. Þetta er gert til að passa að vatnið mengist ekki og allan sólarhringinn er fólk sem vinnur hjá Veitum að passa uppá að það sé í lagi með vatnið okkar.
Gvendarbrunnar eru í 85 m hæð yfir sjávarmáli. Fallhæðin er notuð til að koma vatninu heim í kranann þannig að sem minnst þurfi að nota dælur til að koma því áfram.
Þú getur séð á kortinu hvað vatnið er búið að renna langt í kranann heim til þín.



Hollráð Veitna um kalda vatnið