Maðurinn og skógurinn
Gönguleið með hljóðleiðsögn

Maðurinn og skógurinn er gönguleið frá Elliðaárstöð. Gengið er í átt að Rafstöðvarheimilinu og farið yfir trébrú á hægri hönd inn í árhólmann. Í nokkrum skógarrjóðrum má finna hönnunarinnsetningar sem eiga það sameiginlegt að vekja okkur til umhugsunar um tengsl manns og skógar og nýtingu náttúruauðlinda.
Aðalsmerki Elliðaársdalsins er skógurinn sem veitir gestum dalsins skjól og býr til einstaka upplifun allan ársins hring.
Í tilefni af 70 ára afmæli skógræktar í Elliðaárdal fengu Elliðaárstöð og Orkuveitan þrjú hönnunarteymi til að skapa áfangastaði í hólmanum, sem minna á sögu skógarins og þá miklu gleði sem fylgdi skógræktinni. Fólki gefst þar kostur á að eiga samveru í skjóli, fræðast, njóta náttúrunnar og fallegrar hönnunar.
Árið 1951 fór starfsfólk Rafmagnsveitu Reykjavíkur í fyrsta sinn og gróðursetti tré í Elliðaárhólma. Á fáum árum breyttist hrjóstrugur hólminn í gróið útivistarsvæði sem iðar af fjölbreyttu plöntu- og fuglalífi.
Með hönnunarinnsetningunum vill Orkuveitan vekja athygli á sögu skógarins í Elliðaárdal og minna gesti dalsins á að skógurinn er manngerður og var grunnur lagður að honum vegna framsýni rafmagnsstjórans Steingríms Jónssonar og Láru Árnadóttur konu hans um mikilvægi þess að hlúa að náttúrunni þegar við nýtum gæði hennar.
Upplifunarganga
1. Elliðaárstöð
Upplifunargangan hefst við stiginn inn í skóginn frá Elliðaárstöð. Hér geturðu hlustað og kynnt þér sögu Elliðaárstöðvar og breytt hlutverk í framtíðinni.
2. Rótarör – Stúdíó Flétta
Stúdíó Flétta hannaði bekk úr stálrörum sem vísar til rótarkerfa trjánna sem liggja þvers og kruss um hólmann en kallast einnig á við rör veitukerfanna. Hér er hægt að hlusta á hönnuðina Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur segja frá innsetningunni.
3. Tími og efni – Sóley Þráinsdóttir
Sóley Þráinsdóttir segir staðfræðilega sögu hólmans með ólíkum efnum sem mynda eins konar sundurslitna tímalínu sem nýtist jafnt til leikja, sem setrými og til fræðslu. Hér er hægt að hlusta á Sóleyju segja frá verkinu.
4. Ómsveppir – Kristín María og Friðrik Steinn
Kristín María Sigþórsdóttir og Friðrik Steinn Friðriksson eru hönnuðir álsveppa sem komið hefur verið fyrir í skógarrjóðri í hólmanum. Sveppatínsla í skógum er núvitundarathöfn sem má líkja við skógarbað. Ómsveppirnir gefa frá sér falleg hljóð í skóginum sem falla vel að skóginum og minna okkur á að staldra við, skoða náttúruna með nýjum augum og njóta. Hér er hægt að hlusta á hönnuðina segja frá verkinu.
Kort/map
