Automatic translation by Google Translate. We can not guarantee that it is accurate.

Hlaupið fyrir þau sem dreyma um að ganga

18. nóvember 2024
Hlauparar voru sýnilegir með ljós og endurskinsmerki á hlaupadegi.

Það var fjölmennur hópur hlaupara sem tók þátt í hinu alþjóðlega góðgerðarhlaup Run in the Dark eða Hlaupið í myrkrinu. Þetta er þriðja árið í röð sem hlaupið er frá Elliðaárstöð og um Elliðaárdalinn. Hlaupið hófst samtímis á 50 stöðum víðsvegar um heiminn en markmiðið er að safna fyrir rannsóknum og lækningu á mænuskaða.

Skammdegið var lýst upp en það er við hæfi að hlaupið sé í myrkri þar sem stofnandi hlaupsins, írski útivistar- og ævintýramaðurinn Mark Pollock misst sjónina 22 ára gamall. Hann á sér einstaka sögu og þrátt fyrir að vera blindur þá byggði hann upp magnaðan íþrótta- og ævintýraferil. Hann hefur það m.a. á afrekskrá sinni að vera fyrsti blindi maðurinn til að ganga yfir Suðurpólinn. Lífið ætlaði honum þó fleiri áskoranir því árið 2010 lenti hann í slysi sem hafði þær afleiðingar að hann hlaut alvarlegan mænuskaða og lamaðist. Mark beinir nú kröftum sínum í að finna leiðir til að safna fyrir rannsóknum og lækningu á mænuskaða.

Slagorð hlaupsins er: „Hlaupið fyrir þau sem dreyma um að ganga“ (e. Run for those who dream to walk) og er því um að ræða mjög fallegan boðskap. Tvær vegalengdir voru í boði, fimm eða tíu kílómetrar en áhersla var lögð á að huga að þessu mikilvæga málefni.

Aðrar fréttir