Hlaupið fyrir þau sem dreyma um að ganga
Það var fjölmennur hópur hlaupara sem tók þátt í hinu alþjóðlega góðgerðarhlaup Run in the Dark eða Hlaupið í myrkrinu. Þetta er þriðja árið í röð sem hlaupið er frá Elliðaárstöð og um Elliðaárdalinn. Hlaupið hófst samtímis á 50 stöðum víðsvegar um heiminn en markmiðið er að safna fyrir rannsóknum og lækningu á mænuskaða.
Skammdegið var lýst upp en það er við hæfi að hlaupið sé í myrkri þar sem stofnandi hlaupsins, írski útivistar- og ævintýramaðurinn Mark Pollock misst sjónina 22 ára gamall. Hann á sér einstaka sögu og þrátt fyrir að vera blindur þá byggði hann upp magnaðan íþrótta- og ævintýraferil. Hann hefur það m.a. á afrekskrá sinni að vera fyrsti blindi maðurinn til að ganga yfir Suðurpólinn. Lífið ætlaði honum þó fleiri áskoranir því árið 2010 lenti hann í slysi sem hafði þær afleiðingar að hann hlaut alvarlegan mænuskaða og lamaðist. Mark beinir nú kröftum sínum í að finna leiðir til að safna fyrir rannsóknum og lækningu á mænuskaða.
Slagorð hlaupsins er: „Hlaupið fyrir þau sem dreyma um að ganga“ (e. Run for those who dream to walk) og er því um að ræða mjög fallegan boðskap. Tvær vegalengdir voru í boði, fimm eða tíu kílómetrar en áhersla var lögð á að huga að þessu mikilvæga málefni.