Komdu í heimsókn í Heimili veitna
Ósýnilegt verður sýnilegt er sýning sem sett hefur verið upp í gamla stöðvarstjórahúsinu sem er við hlið Elliðaárstöðvar. Sýningin varpar ljósi á hin ýmsu veitukerfi sem eru okkur ósýnileg en nánast ómögulegt að ímynda sér lífið án. Hvert herbergi hússins hefur verið tileinkað hverri veitu, þar á meðal rafveitu, hitaveitu, ljósleiðara, vatnsveitu og að sjálfsögðu fráveitu.
Gamla stöðvarstjórahúsið sem áður var íbúðarhús rafstöðvarstjóra hefur því fengið nýtt hlutverk sem fræðslu og upplifunarrými. Hönnunarteymið Terta sá um uppsetningu sýningarinnar en vísindamiðlarar Elliðaárstöðvar munu sjá um leiðsögn.
Húsið var byggt samtímis rafstöðinni sem var vígð árið 1921. Á þeim tíma var Elliðaárdalurinn langt utan borgarmarkanna og því nauðsynlegt að þeir sem störfuðu í Elliðaárstöð hefðu búsetu í nágrenninu. Eins var hér fjós og smiðja sem nú hefur verið breytt í veitingastaðinn Á Bístró. Ekki hefur verið búið í stöðvarstjórahúsinu frá því árið 2000, heldur hýsti það funda- og móttökuhús Orkuveitunnar og seinna meir var Stangaveiðifélag Reykjavíkur þar til húsa. Nú opnum við heimilið fyrir gestum á ný, þó ekki sé um hefðbundið heimili að ræða.
Gestir sem koma í heimsókn í Heimili veitna fá að kynnast því hvernig veiturnar þræðast í gegnum veggi og gólf hússins sem þaðan tengjast stærri lögnum. Boðið er upp á fræðandi leiki, áskoranir, fræðslu og notkun ýmissa skynfæra.
„Við erum afar spennt að opna Heimili veitna fyrir gestum og gangandi. Hingað til höfum við aðallega tekið á móti skólahópum og frætt þau um leyndardóma veitnanna. Það er svo gaman að fá að læra í gegnum leik, nýta skilningarvitin og gefa sér tíma til að rýna í hversdagslegar athafnir sem maður leiðir sjaldan hugann að. Innviðir geta svo sannarlega verið forvitnilegir og alger grunnforsenda framfara,“ sagði Edda leiðtogi vísindamiðlunar í Elliðaárstöð um leið og hún hvetur gesti til að kíkja í heimsókn.
Hægt er að bóka í heimsókn hér.