Líf og fjör í Elliðaárstöð – Komdu í heimsókn!

Vorið er komið í Elliðaárstöð! Hér er nánast alltaf logn og þegar sólin skín og hiti er í lofti er þetta hin mesta paradís. Mörg vilja meina að Elliðaárstöð sé Central Park Reykjavíkur en hér er gott að eiga samverustund með fjölskyldu og vinum.
Svæðið bíður upp á svo fjölmargt. Skógurinn, árnar og náttúran í heild sinni gerir svæðið að skemmtilegum leikvelli sem fjölskyldur geta leikið frjálst, farið í lautarferð eða tekið þátt í ratleik á svæðinu sem felst í því að skanna QR kóða og svara orkutengdum spurningum.
Hér eru öll velkomin en nú hefur nýtt kaffihús verið opnað, Elliði. Þar er hægt að fá hinar ýmsu kræsingar allt frá kökum til smurbrauðs.
Uppbókað er í fræðslu skólahópa á vorönn en hægt er að skrá sig á póstlista skólavina hér. Vatnsleikjasvæðið er hins vegar alltaf opið og hægt er að nýta úti nestisaðstöðuna.
Verið velkomin í Elliðaárstöð, áfangastað orku og náttúru!


Hjóla- og gönguleiðir
Frábærar hjóla- og gönguleiðir liggja að Elliðaárstöð, hvort sem komið er neðan úr bæ eða úr úthverfum borgarinnar. Bestu leiðirnar eru í gegnum Elliðaárdalinn eða Fossvogsdalinn en auðvelt er að finna staðsetningu Elliðaárstöðvar á korti.
Kort

Strætó leiðir
Strætó er með stoppistöðvar á ýmsum stöðum í nálægð við Elliðaárstöð:
Leiðir 3, 11, 12 og 17 liggja að stoppistöðinni Elliðaárdalur og er um það bil 10-15 mínútna ganga frá því stoppi að Elliðaárstöð.
Leið 16 kemur að stoppistöðinni Rafstöðvarvegur og tekur um það bil 10 mínútur að ganga þaðan.
Leiðir 12 og 24 liggja að stoppistöðinni að Árbæjarsafni en þaðan er um 15-20 mínútna ganga.
Þá er einnig hægt að taka strætó í Ártún, þar sem fjölmargar leiðir ganga en þaðan er um það bil 20 mínútna labb að Elliðaárstöð.
Strætó