Með nýsköpun og frumkvöðlafærni barna að leiðarljósi
Elliðaárstöð og Hugmyndasmiðir hafa endurnýjað samning sinn um samstarf í nýsköpunarfræðslu, sem hefur það markmið að efla skapandi hugsun og frumkvöðlafærni barna og ungmenna.
Samstarfið skapar vettvang fyrir börn til að þjálfa færni sína í að leysa flókin vandamál framtíðarinnar, með áherslu á umhverfisvitund og nýsköpun. Krakkar eru hugmyndasmiðir og framtíðin er þeirra – og með því að halda samstarfinu áfram er verið að gefa þeim þessi mikilvægu tól.
„Við hjá Hugmyndasmiðum erum einstaklega stolt af árangrinum hingað til og erum ótrúlega spennt að halda áfram að þróa þetta mikilvæga verkefni með Elliðaárstöð. Við trúum því að nýsköpun sé lykillinn að því að búa til sjálfbæra framtíð, og samstarfið okkar hefur sýnt fram á hversu öflugur þessi vettvangur er fyrir unga frumkvöðla,“ segir Svava Björk Ólafsdóttir, hugmyndasmiður og sérfræðingur í nýsköpun.
Framundan eru Fjölskyldusmiðjur Hugmyndasmiða sem haldnar verða valda laugardaga fram á næsta sumar þar sem börn (og fullorðnir fylgifiskar) fá tækifæri til að vinna saman og glíma við raunverulegar áskoranir tengdar orku- og umhverfismálum, með skapandi hætti. Ninna Þórarinsdóttir barnamenningarhönnuður og hugmyndasmiður stýrir smiðjunum. Unnið er með endurnýttan efnivið sem bjargað hefur verið frá förgun til að skapa eitthvað alveg nýtt og spennandi hvort sem er í gegnum smíðar, leiki, föndur eða tilraunir.
Birna Bragadóttir, forstöðukona Elliðaárstöðvar, bætir við: „Við erum ótrúlega spennt að sjá þetta samstarf halda áfram að vaxa og dafna. Hingað til höfum við í Elliðaárstöð tekið á móti yfir 8000 börnum í nýsköpunarfræðslu og fengið frábær viðbrögð frá skólum og fjölskyldum. Þessi samningur gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða börnum að upplifa nýstárlegan vettvang fyrir fræðslu um orku, vísindi og umhverfismál, þar sem framtíðin er í forgrunni.“
Samstarf Elliðaárstöðvar og Hugmyndasmiða markar mikilvægt skref í að efla grasrót ungra frumkvöðla, sem eru tilbúnir til að takast á við áskoranir morgundagsins með skapandi lausnum og sjálfbærni í huga.