Automatic translation by Google Translate. We can not guarantee that it is accurate.

Til baka

Mikil orka á Vísindavöku

Mikið um að vera á bás Elliðaárstöðvar í Laugardalshöll.

Elliðaárstöð tók þátt í hinni árlegu Vísindavöku Rannís sem fór fram í Laugardalshöll þann 28. september 2024. Viðburðinum er ætlað að vekja áhuga á vísindum og nýsköpun. Sem fyrri ár var boðið upp á fjölbreytta og spennandi upplifun á fjölda sýningarbása fyrirtækja, stofnana og háskóla.

Vísindamiðlararnir, Edda Björnsdóttir og Sóldís Lydía Ármannsdóttir stóðu vaktina á bás Elliðaárstöðvar ásamt Emmu Soffíu Elkjær Emilsdóttur sérfræðingi í loftslags- og umhverfismálum og Sigurði Ragnarssyni sérfræðingi Orkuveitunnar í auðlindastýringu.

Á bás Elliðaárstöðvar var lögð áhersla á fræðslu um ólík form orku í gegnum tilraunir og leiki. Gestir fengu þannig tækifæri til að búa til eigin raforku, gæða sér á ávaxtaefnaorku eða gleyma sér í dáleiðandi krafti plasmakúlunnar sem vakti mikla athygli. Þá reyndi á leikni þátttakenda í OrkuOrðaleit þar sem finna mátti orkutengd orð í orðasúpu og ef til vill nokkur sem lærðu þar ný orð.

Sýningartúrbína Landsvirkjunar á bás Elliðaárstöðvar vakti einnig mikla lukku þar sem gestir gátu kynnt sér hvernig vatnsafl er virkjað í vatnsaflsvirkjunum. Sýningartúrbínan gerði gestum kleift að skilja betur þá flóknu tækni sem liggur að baki nýtingu vatnsaflsins og hve mikil lífsgæði fylgja því að þurfa ekki að framleiða raforkuna sjálfur!

Það var því mikil orka á sýningarbás Elliðaárstöðvar í ár enda vel við hæfi á jafn orkumikilum viðburði og  Vísindavakan er.

„Það er dýrmætt að fá tækifæri til að taka þátt í viðburði sem þessum og leggja þannig okkar að mörkum við að auka áhuga á vísindum og tækni. Það er ekki síður mikilvægt að hafa vettvang þar sem gestir og gangandi fá tækifæri til að ræða við sérfræðinga, skyggnast á bak við hvað þau eru að fást við og spyrja spurninga. Við erum afar ánægð og full af orku eftir vel heppnaðan dag,“

 

 

sagði Edda Björnsdóttir vísindamiðlari Elliðaárstöðvar.

Aðrar fréttir