Rafmögnuð Rafleiðsla í rafstöðinni

Boðið var upp á sannkallaða hljóðveislu í Elliðaárstöð á Safnanótt þegar Rafleiðsla var haldin öðru sinni í gömlu rafstöðinni. Rafleiðsla er hljóðbað sem gengur út á samtal í gegnum djúpa hlustun (e. deep listening) og stillta hugleiðslu (e. tuning meditation). Verkið var einskonar dans á milli fyrirfram samdra tónsmíða og spuna sem flæddi samfleytt í 3 tíma.
Rafstöðin lifnaði við og mátti heyra drunurnar bergmála um rýmið. Einstök tenging myndaðist milli listafólksins og áhorfenda þar sem ekkert svið var í salnum. Því flæddu áhorfendur frjálst um salinn og mátti sjá þá ýmist dilla sér eða hugleiða í takt við tónlistina.
Tónlistarfólkið sem fram kom var Osmē (Benedikt Reynisson, Helgi Örn Pétursson og Þórður Bjarki Arnarson), R • O • R (Gyða Valtýsdóttir og Úlfur Hansson), Sóley (Sóley Stefánsdóttir) og Svartþoka (Día Andrésdóttir, Ólöf Rún Benediktsdóttir og Unnur Björk Jóhannsdóttir) ásamt nýmiðlalistamanninum Leó Stefánssyni.