Elliðaárstöð leggur mikið upp úr því að vera í virku samtali við gesti. Nú erum við að þróa nýja fræðsluheimsókn sem ber heitið Verndum vatnið og er hluti af ICEWATER-verkefninu sem er stórt samstarfsverkefni á Íslandi sem miðar að því að auka gæði vatns á Íslandi. Við erum svo lánsöm að við þróun fræðslunnar fáum við liðsinni frá nemendum og kennurum í Barnaskóla Hjallastefnunnar Garðabæ en allir krakkar í skólanum fara í skemmtilega vísindasmiðju þar sem meðal annars er fjallað um vatn. Það var því tilvalið að fá þau í samstarf og nú þegar hafa tveir hópar af sex komið í heimsókn.
Krakkarnir segja okkur hvað þau vilja vita
Krakkarnir segja okkur hvað þau kunna nú þegar og hvað þau vilja vita um vatnið. Þau prófa leikina og verkefnin, segja frá hvað þeim finnst virka vel og kennararnir veita okkur dýrmæta endurgjöf.
Markmiðið er að þróa lifandi fræðslu sem kveikir forvitni og eflir skilning á vatni sem auðlind. Vatnsfræðsla er mikilvægur hluti af orkulæsi framtíðarinnar – hún kennir börnum hvernig vatnið ferðast, hvernig við nýtum það og hvernig við getum verndað það.
Fræðslan er mótuð í virku samstarfi við börn og kennara
Við trúum því að besta leiðin til að skapa góða fræðslu sé í virku samtali við börn og kennara. Þannig verður fræðslan bæði skemmtileg, lærdómsrík og í takt við áhuga og reynslu nemenda.
Hvað er Icewater?
LIFE Icewater er verkefni sem hjálpar okkur að hugsa betur um vatnið á Íslandi. Markmiðið er að tryggja að við notum vatnið á skynsaman hátt og bætum fráveitur og hreinsun. Verkefnið miðar einnig að því að fræða fólk um mikilvægi vatns fyrir líf og náttúru og að samræma og einfalda reglur og ákvarðanir um vatn, svo að öll vinni saman að því að vernda þessa dýrmætu auðlind. Icewater verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu og leitt af Umhverfisstofnun. Orkuveitan er einn af mörgum samstarfsaðilum verkefnisins og er hlutverk Elliðaárstöðvar að sinna fræðslu um vatn.
Lesa um Icewater