Gleðilegan annan í aðventu ❄️
Fylgist með @ellidaarstod á aðventunni þegar starfsfólk Elliðaárstöðvar segir frá jólunum sínum og tengingu við orkuverurnar.
Edda, teymisstjóri þjónustu og Valla varmi eru góðir vinir 🔥
,,Mér er alltaf frekar kalt, sérstaklega um jólin þegar það er hávetur. Þá finnst mér ekkert betra en að koma heim í hlýjuna, leggjast upp í sófa með teppi og góða bók. Ég passa alltaf að loka glugganum þegar úti er kalt þannig að Valla varmi og vinir hennar eigi auðveldara með hita upp heimilið og enginn varmi fari til spillis. Takk Valla varmi,“ segir Edda
👉 Þið getið kynnst Völlu varma betur á vísindasýningunni í Gestastofu Elliðaárstöðvar sem opin er alla virka daga kl. 8:30-16:30 og alla laugardaga fram að jólum kl. 8:30-16:30
Hlustaðu á ferðalag Völlu varma
Höfundur og lesari: Margrét Hugadóttir
Valla varmi kúrði sig djúpt ofan í jörðinni á lághitasvæði í höfuðborginni. Þó að þar væri notalegt og hlýtt, ákvað hún samt að nú væri kominn tími á ferðalag.
„Jæja, ert þú til í að skutla mér?“ spurði hún vatnsdropa sem rann fram hjá.
„Hoppaðu um borð!“ sagði Darri dropi og Valla skellti sér af stað. Nú ferðuðust þau saman sem varmaríkur vatnsdropi — einnig þekktur sem heita vatnið.Skyndilega kom kraftur sem sogaði þau upp úr jörðinni. „Vhúúú! Borholu-lyfta!“ hrópaði Valla og þeyttist upp í gegnum pípu sem leiddi beint upp á yfirborðið. Ferðin tók aðeins nokkrar sekúndur.
Ekki stoppaði ferðalagið þarna. Nú lentu þau í svækjuheitri vatnsrennibraut. Þau voru komin í safnæð í Bolholti, einn helsta samkomustað heita vatnsins. Í safnæðinni safnaðist saman fjöldinn allur af dropum og varma úr öllum áttum! Varmaríkir droparnir voru á iði, orkuríkir og hressir.
Safnæðin fleytti Völlu varma, Darra dropa og öllum hinum varmaríku dropunum áfram að dælustöðinni. Þar var ansi heitt í kolunum — þó engin væru kolin! Dælustöðin var eins og hjarta sem dældi og pumpaði varmaríkum dropum áfram í átt að áfangastað.
„Sjáðu!“ sagði Dropi. „Pípan verður mjórri!“
Og það var rétt. Frá dælustöðinni fóru þau í stóra pípu sem skiptist í mjórri og mjórri pípur, eins og þau væru stödd í æðakerfi líkamans, þar sem æðarnar skiptast í minni æðar sem liggja til ólíkra líffæra í líkamanum. Valla og Darri héldu áfram í gegnum sífellt mjórri pípu, þar til þau runnu með hóp af dropum alla leið heim til þín.
Þegar heim var komið runnu Valla varmi og Darri Dropi inn í miðstöðvarofninn í stofunni. Þar hægði heldur betur á ferðalaginu. „Jæja Darri minn, nú getur þú slakað aðeins á. Kærar þakkir fyrir farið” sagði Valla varmi við dropann vin sinn. Það var komið að kveðjustund. Valla varmi hoppaði í gegnum ofninn inn í herbergið. Hún var enn svo orkurík að hún kom loftinu í herberginu á hreyfingu þannig að loftið varð hlýrra. „Takk fyrir samveruna” kallaði Darri dropi í gegnum ofninn. „Þetta var yljandi samvera!”.
Nú rann Darri sína leið út í fráveituna um hreinsistöð og til sjávar.
En hvað gerðist næst? Hvert liggur leið Völlu varma eftir að hún fór inn í herbergið þitt?
Ferðalag Völlu varma er hluti af fræðsluefninu Ósýnilegt verður sýnilegt.