Innréttingarnar – nýsköpun á 18. öld

Í Elliðaárdal er að finna leifar af byggingum frá 18. öld sem reistar voru vegna ullarframleiðslu sem stuðla átti að framförum í atvinnulífi þess tíma. Þetta var liður í því framtaki Skúla Magnússonar að koma á laggirnar verksmiðjuframleiðslu á Íslandi og fékk nafnið Innréttingarnar. Minjar Innréttinganna, sem enn sjást en fáir vita um, eru rústir sem standa í Árhólmanum neðan við Toppstöðina.
Þarna voru þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði, en vefsmiðjan var í Aðalstræti 10. Ástæða þess að þófaramyllunni og litunarhúsinu var komið fyrir í Elliðaárdal var sú að starfsemin þarfnaðist rennandi vatns. Tilgangur þæfingarinnar var að þétta ullarvoðir og gaf straumur árinnar drifkraftinn. Sneri hann vatnshjóli sem tengt var drifhjóli sem aftur tengdist búnaði sem hamraði ullina. Þegar ullin hafði verið þæfð, sem var mismikið eftir því til hvers átti að nota hana, var hún gjarnan lituð. Talið er að litunarhúsið hafi staðið skammt frá þófaramyllunni, en óvíst er nákvæmlega hvar það stóð. Þó er talið að húsið hafi staðið nokkru neðan við mylluna. Tvennar aðrar rústir eru á þessum slóðum. Er talið að önnur hvor geti verið leifar sútunarverkstæðis.
Hér að ofan má sjá sýnishorn af framleiðslu Innréttinganna og er myndin frá Þjóðskjalasafni Íslands.