Automatic translation by Google Translate. We can not guarantee that it is accurate.

Rafmagnsheimilið

Við veltum því sjaldnast fyrir okkur í dag hve miklu rafmagnið breytti í daglegu lífi fólks. Það er því ekki úr vegi að líta aðeins á umræðuna á upphafsárum rafmagnsins í Reykjavík. Fjallað var um rafmagnið og breytingarnar sem það hafði í för með sér í blaðinu Fálkanum árið 1928. Greinin „Rafmagnsheimilið“ birtist í blaðinu 7. júlí það ár og í henni má sjá hve miklu rafvæðingin breytti.

„Nú tala menn eigi að eins um rafmagnsheimili, menn hafa þegar gert þau svo úr garði, að engum hefir til hugar komið á bernskuárum rafmagnsins. Rafljósið þykir engum neitt tiltökumál um framar, rafmagnsryksugur til þess að sópa gólf og skúmaskot tíðkast um allan heim, og straujárn, hituð með rafstraumi, sömuleiðis. Rafmagnsofnar eru víða notaðir, þó straumurinn sé nokkuð dýr bæði haust og vor, á þeim tíma ársins þegar ekki þarf að hita nema lítið upp. En að vetrarlagi er rafmagnið víðast hvar of dýrt til upphitunar í hinum norðlægari löndum.

Það sem húsmæðurnar meta mestan kost rafmagnsins er annarsvegar hreinlætið og hinsvegar hve fyrirhafnarlítið er að nota það.

Greinarhöfundur fer ekki leynt með aðdáun sína á rafmagninu og hvetur til aukinn raforkuframleiðslu. Öll heimili eigi að vera rafmagnsheimili, enda geti rafmagnið létt lífið og gjörbreytt störfum.

„En það er ýmislegt fleira, sem telja þarf með, til þess að hægt sje að kalla heimilið „rafmagnað“. Rafmagnsþvottavjelar hafa menn t.d. gert, eigi að eins til að þvo þvotta í, heldur og diska og eldhúsáhöld og gólfin sjálf. Og rafhreyfill þykir ómissandi í eldhúsinu, þó ekki sje nema til þess að snúa ketkvörninni eða kaffikvörninni. Og á sveitaheimilum er það ekki fátt af verkum, sem má láta rafmagnið gera, þó ekki sje nema t.d. að klippa fjeð með á vorin. Ótalið er enn, að með rafmagni má halda kælingu í sjerstökum kæliskápum, sem eru hið mesta nauðsynjaþing á hverju heimili, til þess að geyma nýmeti í.

Rafmagnsheimilið er heimili framtíðarinnar. Þar eru öll húsverk ljett, hreinleg og skemmtileg.“

Ósagt skal látið hvort allir deildu þeirri skoðun með greinarhöfundi að tilkoma rafmagnsins gerði húsverkin skemmtileg, en ljóst er að hún gjörbreytti þeim.

Þá er ótalin sú mikla breyting, raunar bylting, í atvinnuháttum sem rafmagnið hafði í för með sér. Ýmiskonar iðnaður spratt upp sem reiddi sig á rafmagn og þá minnkaði rafvæðing heimilanna þörfina fyrir stofustúlkur inni á heimilum betri borgara. Þær tóku því að sér ýmis önnur störf og fjölgaði konum þá á vinnumarkaði, utan heimilanna.

Aðrar fréttir