Á eyju sem er umkringd Atlantshafinu og skorin jökulám og fljótum er ljóst að sundþekking getur bjargað mannslífum. Um aldarmótin 1900 er talið að aðeins 1% þjóðarinnar hafi verið synd. Á þessum tíma var mikill ungmennafélagsandi í landinu og fólk farið að iðka íþróttir sér til heilbrigðis og heilsu. Fyrsta sundkennslan fór fram hér á landi stuttu eftir aldamótin 1800, löngu áður en hitaveitan var stofnuð og var þá notast við skurði, tjarnir og náttúrulegar laugar.
”Strákarnir klæða sig úr á laugarbakkanum, skilja fötin sín eftir í hrúgu og láta steina ofan á ef veður er hvasst svo að spjarirnar fjúka ekki. Nokkru ofar eru þvottalaugar og eitthvað af óhreinu vatninu rennur úr þeim í sundlaugina. Botninn í sundlauginni er fullur af leðju. Þegar strákarnir koma upp úr eru þeir mórauðir á skrokkinn. Ef veður er gott hlaupa þeir eins og fætur toga niður á Kirkjusand til þess að skola þar af sér í sjónum. Sé hins vegar kuldaþræsa eða rigning fara þeir blautir og óhreinir í fötin, hlaupa hvað af tekur skjálfandi og með glamrandi tennur og linna ekki sprettinum fyrr en þeir koma niður í bæ.”
-Knud Zimsen um drengina í lærða skólanum að baða sig í Laugardalslaug.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir fékk samþykkt að fjárefla sundkennslu fyrir stúlkur eins og drengi þegar hún fékk sæti í bæjarstjórn. Hún var talin vera með heimtufrekju fyrir þetta af gamalreyndum bæjarfullrúa.
Fyrsta steinsteypta laugin var reist í Laugardal árið 1908, hún var með steyptan botn en veggirnir voru hlaðnir grjóti. Þá var hægt að kenna sund allan ársins hring. Sundlaugin var fyrst gerð úr torfi og grjóti, sett var upp skýli til að skipta um föt. Gömlu sundlaugarnar nutu mikilla vinsælda hjá ungum sem gömlum. Þessar laugar voru að mestu óbreyttar næstu 60 árin, þar til Laugardalslaug var tilbúin árið 1966.