Á árum áður voru haldin harmonikkuböll hér í Elliðaárstöð þar sem fólk mætti í sínu fínasta pússi. Böllin voru haldin fyrir starfsfólk Rafmagnsveitu Reykjavíkur í lok hvers skógræktardags frá árinu 1951. Langt er síðan harmonikkutónar hafa heyrst í dalnum og vill Elliðaárstöð endurvekja þessa fallegu hefð með því að bjóða gestum dalsins upp á harmonikkutónlist við hátíðleg tækifæri. Myndin hér að ofan er af harmonikkuleikaranum Margréti Arnardóttur og var tekin á 100 ára afmæli rafstöðvarinnar sumarið 2021.