Automatic translation by Google Translate. We can not guarantee that it is accurate.

Til baka

Jólalitagleði!

Nú er farið að líða að jólum og komið að aðventudagatali Elliðaárstöðvar þar sem hægt er að njóta samveru með fjölskyldunni og fræðast um vísindi á aðventunni.

Jólalitagleði!

Það sem þarf er: mjólk, tveir mismunandi matarlitir, piparkökuform, uppþvottalögur (eða einhverskonar sápa) og eyrnapinnar. Þetta er allt eitthvað sem er til á flestum heimilum, sérstaklega þegar jólin nálgast.

Það sem þarf að gera er einfaldlega að hella mjólk á disk, koma piparkökuformi fyrir á miðjan diskinn, hella örfáum dropum af matarlit inn í formið og svo velja annan lit og hella nokkrum dropum af honum fyrir utan formið. Næst þarf að setja sápu á endann á eyrnapinna og setja smá sápu í matarlitinn og fylgjast vel með. Til að gera þetta enn jólalegra mætti hafa matarlitinn í jólalitum og jafnvel setja glimmer með!

 

Tilraunin framkvæmd.

Hvað er að gerast?

Öll efni í heiminum eru gerð úr frumeindum og þegar frumeindir raðast saman mynda þær sameindir, frumeindir eru táknaðar með einum stórum staf eða einum stórum og einum litlum staf. Sápa er gerð úr sameindum sem eru eins og pinnar í laginu, annar endinn er vatnsfælinn (ýtir vatni frá sér) og hinn endinn er vatnssækinn (laðar að sér vatn). Mjólk er blanda af vatni, fitu, vítamínum og steinefnum. Fita er líka vatnsfælin, hægt er að sjá þetta með því að setja vatn og olíu í glas, þá blandast olían og vatnið ekki saman. Vatnsfælin efni sækjast í önnur vatnsfælin efni. Þegar sápan lendir á mjólkinni sækir vatnsfælni endinn í olíuna og vatnssækni endinn sækir í vatnið. Fitan og vatnið í mjólkinni skiljast í sundur og þess vegna fer matarliturinn að hreyfast.

Prófaðu að nota mismunandi tegundir af mjólk, til dæmis: undanrennu, fjörmjólk, léttmjólk, nýmjólk og jafnvel rjóma! Athugaðu hvernig niðurstöðurnar breytast!

Aðrar fréttir