












Við erum að
bæta dalinn þinn
Elliðaárstöð er ný upplifun í Elliðaárdal á vegum Orkuveitu Reykjavíkur þar sem börn og fullorðnir fræðast um sögu og vísindi í lifandi leik.
Húsaþyrpingin við Rafstöðvarveg fær nýtt hlutverk þar sem skólahópar, fjölskyldur, útivistarfólk og aðrir geta kynnt sér vísindin og tæknina á bak við veitukerfin sem byltu lífsgæðum í Reykjavík – eða bara sullað og prílað og fengið sér kaffi og kruðerí.
Við stefnum á að opna á 100 ára afmæli gömlu rafstöðvarinnar sumarið 2021.

Rafmagn í 100 ár
Á þessum merku tímamótum býður Orkuveita Reykjavíkur í aldarafmæli rafstöðvarinnar í Elliðaárdal, sunnudaginn 27. júní, þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá.
Dagskrá:
-
- 11:00 Móttaka við rafstöðina þar sem tímamótanna verður minnst.
- 12:00 Rafstöðin verður opin afmælisgestum og verður boðið upp á fræðslugöngu um rafstöðina, Elliðaárstöð sem nú er í uppbyggingu og Elliðaárhólma.
- 14:00 Tekið verður á móti afmælisgestum við rafstöðina. Leikhópurinn Lotta mun bjóða upp á stutta ævintýragöngu sem endar á leiksýningu fyrir börn og ungmenni í Elliðaárhólma.
Boðið verður upp á hressingu!
Verið öll hjartanlega velkomin í dalinn.
#Dalurinnokkar
Með ljósin kveikt
Rafstöðin í Elliðaárdal var gangsett 27. júní 1921. Þá varð bylting í lífsgæðum Reykvíkinga: ljós kviknuðu, eldavélar hitnuðu og vélar púluðu af stórauknum krafti. Það er ekki ofsagt að þá hafi nútíminn hafið innreið sína í borgina.
Gamla rafstöðin er einstök bygging og heimild um sögu rafmagns á Íslandi. Í kringum hana byggðust upp fleiri hús: heimili stöðvarstjórans, járnsmiðja, hlaða og fjós. Þegar Sogið var virkjað árið 1937 var Straumskiptistöðin reist.
Betri Elliðaárdalur
Árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum í samstarfi við borgina. Á fáum árum breyttist Elliðaárdalurinn úr hrjóstrugum hólma í gróið útivistarsvæði sem nú iðar af fjölbreyttu plöntu- og fuglalífi. Elliðaárnar eru einu laxveiðiárnar í heiminum sem eru innan borgarmarka, og þar eru einnig fornminjar, meðal annars frá tíð Innréttinganna.
Svæðið er sannarlega einstakt enda er Elliðaárdalur eitt fjölsóttasta útivistarsvæði borgarinnar. Með því að gefa húsunum á torfunni nýtt hlutverk er sköpuð ný umgjörð fyrir menningu og mannlíf í dalnum og aðstaða þeirra sem heimsækja hann stórbætt.











H.V., Morgunblaðið, 28. júní, 1987„Þú stígur af malbikaðri hraðbraut með hávaða og umferðargný, gengur nokkur skref og ert kominn í ósvikna íslenska náttúru – heyrir ekkert nema tíst í fuglum, þyt í laufi og sporðaskvamp í vatni. Og þinn eigin hjartslátt. Þetta er Elliðaárdalur – eiginlega inni í miðri borg.“
Um Elliðaárstöð
Orkuveita Reykjavíkur efndi í upphafi árs 2019 til samkeppni um sögu- og tæknisýningu á rafstöðvarreitnum til að fagna 100 ára afmæli Elliðaárstöðvar. Hönnunarhópurinn Terta sigraði samkeppnina og framkvæmdir hófust í október 2020. Markmið OR er að veita fólki greiðan aðgang að þessu einstaka svæði í borginni sem er í almannaeigu, auka upplifun og ánægju og miðla fróðleik.
