Verðmætasta vinnuvél sögunnar gerð upp
Gufuborinn Dofri olli straumhvörfum í borun eftir heitu vatni og gufu hér á landi. Verðmætasta vinnuvél íslandssögunnar verður til sýnis í Elliðaárstöð og minnir gesti dalsins á framsýni liðinna tíma. Við erum svo þakklát fyrir hitaveituna sem yljar okkur á köldum dögum. Hún var svo sannarlega farsælt skref fyrir loftslagið því fyrir hana voru hús hituð með kolum og olíu.
Orkuveita Reykjavíkur, HS Orka og Landsvirkjun hafa saman lagt til 36 milljónir til að gera upp gufuborinn Dofra og mun hann verða til sýnis við Elliðaárstöð í Elliðaárdal.
Gufubor sem olli straumhvörfum
Gufuborinn Dofri olli straumhvörfum í borun eftir heitu vatni og gufu hér á landi þegar útbreiðsla hitaveitna hér á landi var örust. Í ljósi þess mikla sparnaðar, bæði fyrir buddur almennings og umhverfið, sem hitaveitunni fylgja má segja að borinn sé einhver allra verðmætasta einstaka vinnuvél Íslandssögunnar.
Úr olíukyndingu í hitaveitur
Í raun var Gufuborinn olíubor sem keyptur var nýr frá Bandaríkjunum. Þar sem hann boraði hins vegar aldrei eftir olíu heldur vatni fékk hann þetta íslenska nafn. Af mörgum bormönnum gekk hann undir gælunafninu Guffi. Reykjavíkurborg og ríkið sameinuðust um kaup á honum árið 1957. Fyrsta holan var boruð með honum milli Miðtúns og Sóltúns vestur undir Nóatúni í Reykjavík og sú síðasta árið 1991 við Kröflu í Mývatnssveit.
Hitaveituvæðing í kjölfar olíukreppu
Þess á milli átti þessi bor stærstan þátt í borun fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu í Mosfellsbæ, í Reykjavík og á Nesjavöllum meðan hitaveituvæðingu höfuðborgarsvæðisins var að ljúka eftir olíukreppuna á 8. áratug síðustu aldar.
Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni eru afar fá jarðhitasvæðin sem Dofri snerti ekki á. Hann var notaður í Svartsengi, á Reykjanesi, á Seltjarnarnesi, í Hveragerði og í Krýsuvík. Hann var notaður við heitavantsleitina í Eyjafirði og boraði 9 holur í Kröflu. Reyndar boraði Dofri miklu víðar – meira að segja í Færeyjum.
Dofri verður til sýnis í Elliðáarstöð
„Borinn var að drabbast niður þegar HS Orka hafði frumkvæði að því, á vettvangi Íslenska jarðhitaklasans, að þessari merku sögu yrði sómi sýndur með því að gera Dofra upp,“ segir Birna Bragadóttir forstöðukona Elliðárstöðvar.
Það er vélsmiðjan VHE í Hafnarfirði sem sér um viðgerðina en að henni lokinni verður þessum merka bor komið fyrir við Elliðaárstöð, áfangastað við gömlu rafstöðina í Elliðaárdal, sem Orkuveita Reykjavíkur byggir nú upp.
„Við erum afskaplega stolt og ánægð yfir því að fá Dofra til okkar í Elliðaárdalinn enda hefur hann svo sannarlega skipt sköpum í okkar sögu. Hann verður nú hluti af áfangastað sem við erum að byggja upp í dalnum og munum við gera honum góð skil,“ segir Birna.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 10. desember 2022.
Ljósmyndin hér að ofan sýnir Dofri við borun 1958 milli Miðtúns og Sóltúns vestur undir Nóatúni í Reykjavík. Þarna er Gufuborinn að bora sína fyrstu holu. Ljósmynd/PéturThomsen, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.