Vatnið er lífsnauðsynlegt fyrir líkamann og borgina

Hreint vatn er mikilvægt fyrir heilsu og lífsgæði
Vatn er mjög mikilvægt fyrir líkama okkar og heilsu. Það hjálpar okkur að halda réttum líkamshita, sérstaklega þegar við svitnum til að kæla okkur niður. Vatn flytur líka næringarefni og súrefni til frumnanna okkar og hjálpar meltingunni svo við getum fengið orku úr matnum sem við borðum. Þegar við drekkum vatn, hjálpar það einnig til við að losa út úrgangsefni úr líkamanum með þvagi og svita. Þar að auki verndar vatnið innri líffæri okkar og smyr liði svo við getum hreyft okkur auðveldar. Það er því mikilvægt að drekka nóg af vatni á hverjum degi!
Vissir þú?
Vatnsmagnið sem er í umferð hjá vatnsveitunni þarf að getað annað starfi slökkviliðsins fyrir vatn ef kviknar í.
Íslenska vatnið er góður svaladrykkur
Íslenskt drykkjarvatn er með því besta í heiminum. Það er steinefnalítið og ekki þarf að bæta í það hreinsiefnum sem hafa áhrif á bragðið.
Í sumum löndum er vatn mjög ríkt af steinefnum líkt og kalki og magnesíum. Vatn sem inniheldur mikið af steinefnum kallast hart vatn. Á Íslandi er lítið af steinefnum í vatninu og telst vatnið okkar vera mjúkt. Mjúkt vatn er gott fyrir þær sakir að það þarf að nota minni sápu við þvotta, betra fyrir lagnirnar á heimilinu og minna af steinefnum fellur út á vaska, sturtubotna og baðkör.
Hreint vatn er lífsnauðsynlegt
Að fá hreint og gott vatn úr krananum á heimili okkar er mikilvægt fyrir heilsu okkar og bætir lífsgæði okkar. Vatnsveita Reykjavíkur var stofnuð árið 1909. Fyrst var tekið vatn úr Elliðaánum um nokkurra mánaða skeið, en svo var vatnslögnin lögð alla leið upp í Gvendarbrunna í Heiðmörk. Enn þann dag í dag fá Reykvíkingar vatnið sitt úr borholum í Gvendarbrunnum og frá nærliggjandi svæðum í Heiðmörk. Vatninu er dælt upp úr borholum og svo rennur það eftir stórum vatnslögnum í átt að heimilum okkar.

Áður en vatnsveitan var stofnuð þurfti fólk að sækja vatn í brunna og ganga með það langar leiðir. Stundum bárust óhreinindi úr nærliggjandi kömrum í vatnið og gat það valdið sjúkdómum. Í dag fáum við vatn af góðum gæðum frá ýmsum vatnsbólum í gegnum borholur sem boraðar eru niður í jörðina. Þetta vatn er heilnæmt og sannkallaður svaladrykkur.
Erlendis þarf oft að leiða vatn í gegnum flókna margþrepa hreinsiferla til þess að gera það hæft til drykkjar. Á Íslandi erum við svo heppin að oftast þarf litla sem enga meðhöndlun á vatninu þar sem vatnið hefur runnið í gegnum berglög og síast á leiðinni. Eitt af sérkennum íslensks vatns er því hversu hreint og ferskt það er. Hins vegar hefur orðið algengara á Íslandi undanfarin ár að lýsa vatnið með útfjólubláu ljósi til að óvirkja örverur sem mögulega geta komist í vatnsból, t.d. í miklum rigningum eða leysingum þegar meira yfirborðsvatn er á ferðinni.
Þó við séum heppin með aðgengi að góðu vatni á Íslandi er alltaf gott að hugsa um hvaðan vatnið sem maður er að drekka er að koma og í gegnum hvers kyns umhverfi vatnið hefur runnið. Ef vatn rennur yfir eða um svæði þar sem er að finna óæskileg efni eða úrgang getur vatnið mengast og orðið óhæft til drykkjar.
Vissir þú?
Orkuveitan og dótturfyrirtækið Veitur eru stærstu matvælaframleiðendur á Íslandi. Ástæðan er sú að kalda vatnið telst til matvæla og fær um helmingur landsmanna vatn sitt úr borholum Orkuveitunnar.

Ósýnilegt verður sýnilegt
Greinin er hluti af fræðsluefninu Ósýnilegt verður sýnilegt sem veitir okkur innsýn í hvernig veitukerfin í borginni virkar á bak við tjöldin.
Skoða