Automatic translation by Google Translate. We can not guarantee that it is accurate.

Ásgeir og Raffi rafeind á fyrsta í aðventu

30. nóvember 2025

Gleðilegan fyrsta í aðventu ❄️

Fylgist með á aðventunni þegar starfsfólk Elliðaárstöðvar segir frá jólunum sínum og tengingu við orkuverurnar.

Ásgeir húsvörður og Raffi rafeind fagna deginum saman ⚡

,,Á aðventunni hugsa ég sérstaklega til baka þegar ég vann við að hengja upp jólaljósin í bænum. Þá var unnið dag og nótt til að lýsa upp bæinn. Ég tek alltaf jólatréð úr sambandi á nóttinni til að fara vel með rafveitukerfið og þannig að Raffi rafeind og vinir hans geti hvílt sig fyrir átök dagsins.“ segir Ásgeir 🎄

Hlustaðu á ferðalag Raffa rafeindar

 

Höfundur og lesari: Margrét Hugadóttir

Ferðalag Raffa Rafeinda – frá Hengli, heim til þín

Uppi á Hengli þaut heit gufa upp úr iðrum jarðar. Hún kom upp í gegnum borholu sem var á svæðinu og ferðaðist í gegnum stóra pípu að Hellisheiðarvirkjun. Inni í virkjuninni sneri heita jarðhitagufan stórum hverfli (túrbínu) og við það fór rafallinn í vélinni líka að snúast.

Það var líkt og fyrir töfra að um leið og seglarnir í rafalnum fóru að snúast í segulsviði fæddist Raffi Rafeind. Hann fékk orku sína úr hreyfiorku gufunnar (sumir kalla hana Völlu varma).

Halló, heimur! kallaði Raffi, fullur af orku og eftirvæntingu fyrir ferðalaginu sem var nú fyrir höndum. Eitt sinn var ég varmaorka djúpt ofan í jörðu en svo breyttist ég í gufu, fulla af hreyfiorku, og nú er ég raforka!Ég er greinilega ferðalangur í stuði! hugsaði hann með sér. „Tími til að fara af stað!“ sagði hann og smellti sér inn í rafstrauminn sem var nýorðinn til í virkjuninni.

Raffi tók vel á rás eftir risastórum háspennulínum sem hanga á möstrum í loftinu um dali og fjöll. Hann fann að spennan var há – mjög há! Það var gott því þá var hægt að flytja mjög mikið af raforku í einu til borgarinnar.

„Vúhú! Ég flýg á háspenntur á ógnarhraða!“ hrópaði Raffi þegar hann geystist áfram með öðrum rafeindum eftir háspennulínu. Þetta var eins og hann væri í svakalegri aparólu sem flutti hann alla leið úr virkjun upp á heiði í tengivirki þar sem hann hitti fullt af öðrum rafeindum úr öðrum virkjunum.

Nú nálgaðist hann borgina og þá var kominn tími á að draga aðeins úr spennunni í Aðveitustöðinni, „maður getur ekki verið of spenntur þegar maður ferðast um götur borgarinnar“ hugsaði Raffi með sér. Raffi nálgaðist nú hverfið þitt. Hann stoppaði stutt í dreifistöð þar sem rafspennan var lækkuð enn meir, svo að orkan myndi vera í réttri spennu fyrir heimilin og tækin. Þó að hann væri ekki jafn spenntur og áður fannst honum samt alveg gaman.
Nú lá leiðin á næstsíðasta áfangastaðinn. Götuskáp! Þú hefur eflaust séð götuskáp nálægt heimili þínu. Úr götuskápnum liggur nefnilega rafstrengur inn í rafmagnstöfluna sem er heima hjá þér og það er leiðin sem Raffi fer heim til þín.
Nú var Raffi kominn alla leið úr virkjun heim til þín. 

En hvert fer hann svo? Kannski ratar Raffi í ísskápinn og heldur matnum þínum köldum? Kannski knýr hann hleðslutækið? eða þvottavélina? En eitt er víst. Lífið væri aðeins erfiðara án Raffa og annarra rafeinda.

Ferðalag Raffa rafeindar er hluti af fræðsluefninu Ósýnilegt verður sýnilegt.

Aðrar fréttir