Iðn- og tæknigreinar opna margar dyr í atvinnulífinu. Þær eru hagnýtar og skapa mikil verðmæti.

Valgreinin Iðnir og tækni

Valgreinin Iðnir og tækni hefur það að markmiði að auka áhuga nemenda á iðn- og tæknigreinum og kynna fjölbreytt störf og starfstækifæri sem þeim tengjast. Valgreinin hefur verið samstarfsverkefni Orkuveitu Reykjavíkur og Árbæjarskóla frá árinu 2015. Nú í fyrsta sinn koma einnig nemendur frá Réttarholtsskóla og taka þátt.

Fræðsla, ferðir og verklegt

Nemendur kynnast helstu iðn- og tæknigreinum og njóta leiðsagnar starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja; Orku Náttúrunnar, Veitna, Ljósleiðarans og Carbfix.

Nemendur læra grunnatriði í rafvirkjun, pípulagningum, vélfræði, málmiðngreinum og hönnunarhugsun og prófa ýmis verkfæri og tæki. Áhersla er lögð á öryggismál og góð vinnubrögð.
Námið er fjölbreytt og byggir á fræðslu, verkefnavinnu, vettvangsferðum og verklegum æfingum.

Farið verður í nokkrar ferðir á önninni t.d. í Gvendarbrunna og Hellisheiðarvirkjun. Dæmi um verkefni sem nemendur vinna er hönnun draumahússins og lampagerð.

Hæfniviðmið

Að námskeiði loknu:
Nemandi getur sagt frá hvernig iðn- og tæknigreinar eru nýttar í atvinnulífinu og fær tækifæri til að upplifa hvernig er að vinna við iðn- og tæknistörf.

Nemandi getur beitt nokkrum aðferðum og tækni í sjálfstæðri og skapandi vinnu. Tjáð sig með vinnuteikningu, útfært eigin hugmyndir og unnið eftir hönnunarferli.

Nemandi býr yfir hæfni til að tengja þekkingu sína og leikni við daglegt líf, tækni og vísindi.

Nemandi getur útskýrt áhrif helstu lífæða samfélagsins (t.d. kalt og heitt vatn, raforka og fráveita o.fl.) á lífsgæði borgarbúa og sett þær í samhengi við sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Nemandi getur bent á ýmis tæknifyrirbrigði er tengjast hans daglega lífi og lýst hvernig tæknin birtist í nánasta umhverfi hans og almennt í samfélaginu.

Þátttökuskilyrði

Valgreinin er í boði fyrir 16 nemendur í 10. bekk. Góð skólasókn í 8. og 9. bekk er forsenda þátttöku. Við hvetjum öll kyn til að sækja um.
Valgreinin tekur eina önn og fer kennslan fram eftir hádegi á miðvikudögum.

Mikilvæg störf

Iðn og tæknigreinar eru mikilvægar og iðn og tæknimenntað fólk sér til þess að lífæðar samfélagsins eins og kalt vatn, heitt vatn, rafmagn og fráveita virki. Fólk sem starfar við iðn og tæknigreinar er mjög mikilvægt fyrir lífsgæði okkar.

Nýr STRAUMUR í Elliðaárstöð

Við nýtum STREAM nálgun í fræðslu og þekkingarmiðlun til barna og ungmenna. STREAM samþættir vísindi (science), tækni (technology), læsi (reading), verkfræði (engineering), listir (arts) og stærðfræði (mathematics).
Hún styrkir m.a. nýsköpunarhæfni, gagnrýna hugsun og lausnaleit. Aðferðin eykur hæfni nemenda til að mæta helstu úrlausnarefnum samtímans.

Nánari upplýsingar veitir

Margrét Hugadóttir gerir sýnitilraunir með rafhleðslu.

Margrét Hugadóttir

Leiðtogi þekkingarmiðlunar og fræðslu, í barneignarleyfi

margret.hugadottir@or.is

Elliðaárstöð

Elliðaárstöð er nýr áfangastaður á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdal.
Húsaþyrping sem áður hýsti vatnsaflsvirkjun og iðnað fær nýtt hlutverk þar sem gestir fræðast um vísindin og tæknina á bak við veitukerfin sem hafa umbylt lífsgæðum í höfuðborginni.

Rafstöðin Elliðaárstöð sem var gangsett árið 1921 lýsti á sínum tíma leiðina til framtíðar. Í Elliðaárstöð sækjum við okkur innblástur til framsýni fyrri tíma og leitum nýrra lausna fyrir framtíðina. Í stað þess að virkja vatnsafl Elliðaánna virkjum við hugvit og eflum nýsköpun.

Í Elliðaárstöð gerum við hið ósýnilega sýnilegt og sáum fræjum fyrir frjóa hugsun.Elliðaárstöð er í eigu OR sem færir viðskiptavinum heitt og kalt vatn, raforku, gagnamagn og vinnur að vatnsvernd og heilbrigði með fráveitu og hreinsistöðvum.
Dótturfyrirtæki OR; Veitur, Orka Náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix sinna mikilvægri þjónustu í almannaþágu.