Automatic translation by Google Translate. We can not guarantee that it is accurate.

Til baka

Mikið líf í skólaheimsóknum í Elliðaárstöð

Krakkar í Elliðaárstöð. Skólahópar heimsækja Elliðaárstöð og fræðast um vísindi, orku og auðlindir.

Frá áramótum fram í mars 2023 hafa yfir 500 nemendur á miðstigi grunnskóla heimsótt Elliðaárstöð. Við erum í skýjunum með móttökurnar og hlökkum til að taka á móti öllum þeim 1500 krökkum sem eru skráðir í heimsókn fram á vor.

Börnin eru flest sammála um að svæðið sé einstaklega skemmtilegt og hafa þau notið þess að læra um orku og vísindi á þessum sögulega stað. Leikvöllurinn hefur skorað hátt hjá gestum og hafa krakkarnir skemmt sér þar þrátt fyrir fimbulkulda.

Börnin hafa heimsótt Rafstöðina og þó að hún sé yfir aldargömul þá hefur hún minnt krakkana á ,,tímavél”, ,,stað í Star Wars” og  jafnvel ,, töfravél”. En það er vissulega töfrandi að sjá hvernig orkan breytir um form og að hægt sé að umbreyta stöðu-, fall- og hreyfiorku vatns í raforku.

Fjölbreytt dagskrá

Það má segja að Elliðaárdalurinn sé vagga veitnanna í Reykjavík, en hér má segja frá upphafi vatnsveitunnar, frá fráveitunni og rafveitunni. Skólahóparnir koma í leiðsögn um svæðið og læra um töfra orkunnar á skemmtilegan hátt.

STEAM og STREAM menntun í Elliðaárstöð

Leiðarljós okkar í fræðslu er STEAM og STREAM menntun en hún samþættir vísindi (e. science), tækni (e. technology), verkfræðihugsun (e. engineering), listir (e. arts) og stærðfræði (e. stærðfræði) auk afþreyingar (e. recreation). Lestu meira um STEAM og STREAM menntun hér.

Mikil eftirspurn í fræðslu um orku og vísindi

Það fylltist fljótt í öll pláss sem í boði voru þegar skólaheimsóknirnar voru auglýstar í byrjun árs og eigum við von á um 60 hópum fram á sumar. Dagskrá næsta hausts verður kynnt í ágúst og er um að gera að hafa hraðar hendur og bóka heimsókn þá.

Við hvetjum ykkur til að fylgja okkur á vefnum okkar og samfélagsmiðlum, á instagram og Facebook, en þar auglýsum við dagskrána.

Barn í gufu, umkringt STEAM táknum.

Komdu í Elliðaárstöð

Nemendur koma í heimsókn og fræðast um orku og vísindi. Fræðslan í Elliðaárstöð er opin nemendum á miðstigi grunnskóla, þeim að kostnaðarlausu. Miðað er við um 20 nemendur í hóp og eru laus pláss auglýst árlega.

Nánar um skólaheimsóknir

Aðrar fréttir