Hlustaðu á ferðalag Diddu dropa
Höfundur og lesari: Margrét Hugadóttir
Didda dropi dólaði sér í hafinu og naut sólarinnar.
Allt í einu skein sólin svo skært á hana að hún breyttist í gufu. „Jibbý! Nú fæ ég að fara í ferðalag,“ kallaði Didda um leið og hún sveif upp í loftið með hinum dropunum sem voru að gufa upp.
Þegar Didda dropi var komin hátt upp í loft kólnaði hún lítillega og sameinaðist skýi með mörgum öðrum dropum.
„Hæ, Dolli Dropi! Hæ Lind,“ kallaði hún þegar hún heilsaði dropunum sem hún kannaðist við. Það er alltaf stuð að hittast svona hátt uppi!
Allt í einu kólnaði hún enn meira, þéttist og byrjaði að falla eins og í fallturni, alla leið niður á jörðina þar sem hún lenti í Bláfjöllum.
„Nú er ég heldur betur orðin að landkönnuði“, kallaði Didda um leið og hún draup í gegnum sand og sprungur í hrauninu. Þetta var eins og hún væri komin á snyrtistofu í náttúrulega hraunhreinsun. Allt litla rykið sem hafði festst við hana í loftinu losnaði af og hún varð tandurhrein á ný.
Nú fann Didda að hún var komin í rosalega vatnsrennibraut. Hún hafði sameinast grunnvatnsstraumi sem er eins og stór á sem rennur neðanjarðar. Eftir smá salibunu hugsaði Didda með sér: „Ohh, ég væri alveg til í að komast aftur upp á yfirborðið“ … og allt í einu rættist ósk hennar. En hvernig?
Skyndilega kom kraftur sem sogaði Diddu upp úr jörðinni. „Vúúhúú! Borholu-lyfta!“ hrópaði hún þegar hún þeyttist upp í gegnum mjóa pípu sem leiddi beint upp á yfirborðið. Ferðin tók örstutta stund. Didda var komin inn í vatnspípuna í Gvendarbrunnum.Allt í einu varð allt mjög bjart! Didda og allir hinir droparnir fengu að renna í gegnum ljósa sýningu. Í lýsingartækinu var útfjólubláum geislum lýst á þau. En það var bara til öryggis. Þetta er víst gert til að óvirkja örverur sem gætu komið í vatnið úr jörðinni þegar mikið rignir eða þegar það eru jarðskjálftar. Svona sótthreinsun með ljósi – ekki spritti.
Nú rann Didda aftur af stað í vatnsrennibrautarsalibunu sem endaði í vatnsgeymi – svona innilaug fyrir vatnsdropa. Þar hinkraði hún í smá stund áður en hún lagði aftur af stað í gegnum langa vatnslögn og dælustöð sem dældi henni alla leið beint heim til þín.
„Nú verður sko fjör”, kallaði Didda þegar hún hentist úr krananum í glasið þitt.
En hvað gerðist næst? Hvert lá leið Diddu eftir að hún fór í glasið þitt?
Ferðalag Diddu dropa er hluti af fræðsluefninu Ósýnilegt verður sýnilegt.