Hringrás vatns

Hring eftir hring
Allt regn sem fellur á jörðina hefur gufað upp úr sjónum og af landi. Þetta vatn gerir lífi kleift að þrífast á jörðinni og nýtist okkur sem drykkjarvatn og til að vökva allt sem við ræktum.
Sólin skín á hafið og landið og vatnið gufar upp. Þegar gufan kólnar í andrúmsloftinu þéttist hún og verður að regndropum í skýi. Þegar skýið kólnar rignir dropunum niður. Stærstur hluti vatnsins rennur svo aftur til sjávar af landinu með lækjum og ám. Hluti vatnsins getur einnig geymst tímabundið innan til dæmis gróðurs, stöðuvatna og jökla. Þetta ferli í heild sinni kallast hringrás vatns.
En vatnið fer ekki aðeins út í sjó með ám og lækjum. Regndropi sem fellur í Bláfjöllum og á svæðinu þar í kring, rennur um holrými, sprungur, hraun og berglög og rennur saman við vatnsmikla grunnvatnsstrauma sem liggja neðanjarðar og eru okkur ósýnilegir frá yfirborði. Hægt er að bora eftir vatni á svona svæðum og dæla því upp úr jörðinni. Þannig er málunum háttað í Reykjavík og er vatnið sem kemur úr krananum þegar við skrúfum frá hreint og gott hraunsíað vatn. Vatnsdroparnir geta verið á mismunandi aldri, allt frá því að vera nokkurra klukkustunda gamlir dropar sem hafa fallið sem rigning nálægt borholunum sjálfum og í það að vera nokkurra ára gamlir vatnsdropar sem hafa fallið á Bláfjallasvæðinu.

Ósýnilegt verður sýnilegt
Greinin er hluti af fræðsluefninu Ósýnilegt verður sýnilegt sem veitir okkur innsýn í hvernig veitukerfin í borginni virkar á bak við tjöldin.
Skoða