Það kemur allt með kalda vatninu
Hvaðan kemur vatnið?
Hvaðan fáum við kalda vatnið sem við drekkum og er okkur og heilsu okkar svo mikilvægt?
Hring eftir hring
Allt regn sem fellur á jörðina hefur gufað upp úr sjónum og af landi. Þetta vatn gerir lífi kleift að þrífast á jörðinni og nýtist okkur sem drykkjarvatn og til að vökva allt sem við ræktum.
Sólin skín á hafið og landið og vatnið gufar upp. Þegar gufan kólnar í andrúmsloftinu þéttist hún og verður að regndropum í skýi. Þegar skýið kólnar rignir dropunum niður. Stærstur hluti vatnsins rennur svo aftur til sjávar af landinu með lækjum og ám.Hluti vatnsins getur einnig geymst tímabundið innan til dæmis gróðurs, stöðuvatna og jökla. Þetta ferli í heild sinni kallast hringrás vatns.
En vatnið fer ekki aðeins út í sjó með ám og lækjum. Regndropi sem fellur í Bláfjöllum og á svæðinu þar í kring, rennur um holrými, sprungur, hraun og berglög og rennur saman við vatnsmikla grunnvatnsstrauma sem liggja neðanjarðar og eru okkur ósýnilegir frá yfirborði. Hægt er að bora eftir vatni á svona svæðum og dæla því upp úr jörðinni. Þannig er málunum háttað í Reykjavík og er vatnið sem kemur úr krananum þegar við skrúfum frá hreint og gott hraunsíað vatn, . Vatnsdroparnir geta verið á mismunandi aldri, allt frá því að vera nokkurra klukkustunda gamlir dropar sem hafa fallið sem rigning nálægt borholunum sjálfum og í það að vera nokkurra ára gamlir vatnsdropar sem hafa fallið á Bláfjallasvæðinu.
Kalt vatn í kroppnum þínum
Vatn er mjög mikilvægt fyrir líkama okkar og heilsu. Það hjálpar okkur að halda réttum líkamshita, sérstaklega þegar við svitnum til að kæla okkur niður. Vatn flytur líka næringarefni og súrefni til frumnanna okkar og hjálpar meltingunni svo við getum fengið orku úr matnum sem við borðum. Þegar við drekkum vatn, hjálpar það einnig til við að losa út úrgangsefni úr líkamanum með þvagi og svita. Þar að auki verndar vatnið innri líffæri okkar og smyr liði svo við getum hreyft okkur auðveldar. Það er því mikilvægt að drekka nóg af vatni á hverjum degi!
Íslenska vatnið er góður svaladrykkur
Íslenskt drykkjarvatn er með því besta í heiminum. Það er steinefnalítið og ekki þarf að bæta í það hreinsiefnum sem hafa áhrif á bragðið.
Í sumum löndum er vatn mjög ríkt af steinefnum líkt og kalki og magnesíum. Vatn sem inniheldur mikið af steinefnum kallast hart vatn. Á Íslandi er lítið af steinefnum í vatninu og telst vatnið okkar vera mjúkt. Mjúkt vatn er gott fyrir þær sakir að það þarf að nota minni sápu við þvotta, betra fyrir lagnirnar á heimilinu og minna af steinefnum fellur út á vaska, sturtubotna og baðkör.
Hreint vatn er mikilvægt fyrir heilsu og lífsgæði
Að fá hreint og gott vatn úr krananum á heimili okkar er mikilvægt fyrir heilsu okkar og bætir lífsgæði okkar. Vatnsveita Reykjavíkur var stofnuð árið 1909. Fyrst var tekið vatn úr Elliðaánum um nokkurra mánaða skeið, en svo var vatnslögnin lögð alla leið upp í Gvendarbrunna í Heiðmörk. Enn þann dag í dag fá Reykvíkingar vatnið sitt úr borholum í Gvendarbrunnum og frá nærliggjandi svæðum í Heiðmörk. Vatninu er dælt upp úr borholum og svo rennur það eftir stórum vatnslögnum í átt að heimilum okkar.
Áður en vatnsveitan var stofnuð þurfti fólk að sækja vatn í brunna og ganga með það langar leiðir. Stundum bárust óhreinindi úr nærliggjandi kömrum í vatnið og gat það valdið sjúkdómum. Í dag fáum við vatn af góðum gæðum frá ýmsum vatnsbólum í gegnum borholur sem boraðar eru niður í jörðina. Þetta vatn er heilnæmt og sannkallaður svaladrykkur.
Erlendis þarf oft að leiða vatn í gegnum flókna margþrepa hreinsiferla til þess að gera það hæft til drykkjar. Á Íslandi erum við svo heppin að oftast þarf litla sem enga meðhöndlun á vatninu þar sem vatnið hefur runnið í gegnum berglög og síast á leiðinni. Eitt af sérkennum íslensks vatns er því hversu hreint og ferskt það er. Hins vegar hefur orðið algengara á Íslandi undanfarin ár að lýsa vatnið með útfjólubláu ljósi til að óvirkja örverur sem mögulega geta komist í vatnsból, t.d. í miklum rigningum eða leysingum þegar meira yfirborðsvatn er á ferðinni.
Þó við séum heppin með aðgengi að góðu vatni á Íslandi er alltaf gott að hugsa um hvaðan vatnið sem maður er að drekka er að koma og í gegnum hvers kyns umhverfi vatnið hefur runnið. Ef vatn rennur yfir eða um svæði þar sem er að finna óæskileg efni eða úrgang getur vatnið mengast og orðið óhæft til drykkjar.
Vissir þú?
Orkuveitan og dótturfyrirtækið Veitur eru stærstu matvælaframleiðendur á Íslandi. Ástæðan er sú að kalda vatnið telst til matvæla og fær um helmingur landsmanna vatn sitt úr borholum Orkuveitunnar.
Hreint vatn er mikilvægt öllum jarðarbúum
Enn hafa margir í heiminum ekki aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Mikilvægt er að tryggja aðgengi allra að hreinu vatni um komandi tíð.
Aðgengi að hreinu vatni er forsenda þess að lifa heilbrigðu lífi og eru það réttindi hvers og eins að hafa aðgang að vatni. Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er að fyrir árið 2030 eigi þjóðir heimsins að vinna saman að því að tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og salernisaðstöðu.
Hvert örstutt vatnsspor
Mikið vatn er notað í framleiðslu allra hluta sem við notum. Misjafnt er hversu mikið vatn er notað við gerð ákveðinna hluta, en það minnir okkur á að þó að við á Íslandi höfum góðan aðgang að vatni, þá eru flestir hlutir sem við notum, fluttir inn frá öðrum löndum. Jafnvel löndum sem eru ekki jafn rík af vatni og við. Það minnir okkur á að gæta þess að kaupa ekki óþarfa og hluti bara til þess að henda þeim. Því það er sóun, og jafnvel vatnssóun á svæði þar sem fólk þarfnast vatns.
Við þurfum að vinna saman að því að bæta aðgengi fólks að hreinu vatni, þar sem það er bæði mannréttindi og lífsnauðsynlegt að fá hreint og öruggt vatn.
Vatnið á bak við hlutina
1 örk af A4 blaði = 5,1 lítrar af vatni 1 glas af eplasafa = 269 lítrar af vatni 1 gallabuxur= 10850 lítrar af vatni
Snjallsími = 12760 lítrar af vatni
„Ímyndaðu þér í smástund að þú getir ekki farið að næsta krana og fengið þér kalt vatn að drekka. Það er skrítið fyrir okkur á Íslandi að hugsa til þess að við getum ekki fengið ferskt og hreint vatn þegar okkur langar. En þetta er staðreynd fyrir alveg svakalega marga í heiminum í dag og þessu þarf að breyta. Það getur verið lífhættulegt að hafa ekki aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu“
Af vef Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun.
Vatnsverndarsvæði eru lykillinn að hreinu vatni
Mikilvægt er að vatnið sem kemur úr krönunum sé hreint og ómengað því við drekkum það og það er notað í ýmiss konar matvælaframleiðslu. Vatnsbólin sem við sækjum vatnið í eru á vatnsverndarsvæði og það er mjög mikilvægt að við gætum öll varkárni í umgengni við þau. Helsta hættan er að svæðin mengist, t.d. með rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum því þessi efni geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið sem rennur neðanjarðar inn í vatnsbólin. Við þurfum líka að vernda vatnsbólin fyrir örverumengun sem getur borist með dýrum eða úr jarðvegi í leysingum. Vatnið sem við á höfuðborgarsvæðinu drekkum hefur komið alla leið úr Bláfjöllum, sem eru innan vatnsverndarsvæðis, og þarf því að fara varlega um svæðið t.d. þegar við skellum okkur á skíði. Olíuslys eða önnur mengun í Bláfjöllum eða í Heiðmörk gæti haft mjög neikvæð áhrif á gæði vatnsins sem við drekkum. Það sama á við um önnur vatnsverndarsvæði.
Vatnsból sem Veitur sækja vatn í eru á höfuðborgarsvæðinu, Suður- og Vesturlandi og eru 13 talsins. Við öflum neysluvatns í Heiðmörk (Gvendarbrunnum, Jaðri, Myllulæk og Vatnsendakrikum), við Akrafjall (Berjadalsá, Slaga og Óslækur), Seleyri norðan Hafnarfjalls, úr lindum í Hafnarfjalli, Grábrókarhrauni, Svelgsárhrauni, Grund, Fossamelum, Steindórsstöðum og Bjarnarfelli. Vatninu úr þessum vatnsbólum er dreift til yfir helming landsmanna.
Hvernig kemst vatnið heim til okkar?
Vatnið okkar kemur úr vatnsbólum og eru staðirnir sem vatnið er sótt í kallaðir vatnsöflunarstaðir (staðurinn sem við öflum vatns). Frá þessum stöðum rennur vatn eftir stórum vatnslögnum í dælustöðvar og miðlunartanka. Frá dælustöðvum og tönkum rennur vatnið sjálft eða því er dælt til heimila, stofnana og fyrirtækja. Í kjallara hússins, eða á fyrstu hæð er að finna vatnsinntak fyrir húsið. Þar kemur vatnið inn í húsið. Vatnslagnir liggja svo frá inntakinu að krananum.
Vissir þú?
Vatnsmagnið sem er í umferð hjá vatnsveitunni þarf að getað annað starfi slökkviliðsins fyrir vatn ef kviknar í.
Hvað getur notkun á köldu vatni sagt okkur um atferli manna?
Árið 2020 var gerð rannsókn þar sem rennsli vatns var skoðað yfir daginn. Í ljós kom að við notum sem nemur 140 lítrum af vatni á hvern íbúa. Til samanburðar benda heimildir til að neysluvatnsnotkun í löndum Evrópu liggi á bilinu frá um 110 til 260 L/íbúa/sólarhring. Það má segja að þessi rannsókn segi hálfgerðar gagnasögur, því út frá gögnunum má álykta hvað er í gangi hverju sinni hjá borgarbúum. Skoða rannsókn.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að notkun á vatni er mjög lítið á nóttinni en eykst milli 6 og 8 á morgnanna. Þá er líklegt að fólk sé að fara á klósettið og í sturtu.
Vatnsnotkunin helst stöðug yfir daginn þar til kemur að kvöldmatartíma en þá eykst notkunin mikið og helst þannig eftir kvöldi.
Ferð þú seint á fætur um helgar?
Um helgast virðist fólk fara seinna á fætur um helgar og aðeins seinna að sofa. Það er hægt að sjá á gögnum um vatnsnotkun.
Hvenær ferð þú í jólabaðið?
Vatnsnotkun á aðfangadag segir ákveðna sögu um hvað fólkið í landinu er að gera á hverjum tíma. Það er líklega að skella sér í sturtu og elda mat á milli 16 og 18 og svo er fólk farið að borða og stússast með pakkana eftir það.
Heldur þú í þér á meðan áramótaskaupið er í sjónvarpinu?
Gögn um vatnsnotkun á gamlárskvöld sýna að landsmenn sitja spenntir yfir sjónvarpinu á milli klukkan tíu og ellefu að kvöldi gamlársdags. Ætli það sé ekki merki um að öll séu að horfa á áramótaskaupið?
Kalda vatnið er dýrmæt auðlind
Kalda vatnið okkar á Íslandi er einstök auðlind sem við þurfum að vernda. Við fáum vatnið okkar frá náttúrulegum uppsprettum og borholum, og þökk sé vatnsveitukerfinu kemur þetta hreina vatn beint heim til okkar. Það er mikilvægt að muna hversu heppin við erum að hafa aðgang að hreinu drykkjarvatni, sérstaklega þegar við hugsum til þeirra staða í heiminum þar sem fólk hefur ekki sömu möguleika.
Ósýnilegt verður sýnilegt
Veist þú hvernig borgin virkar? Hvaðan fáum við rafmagnið? Hvert fer það sem fer í klósettið?
Lesa meiraGreinin er hluti af fræðsluefninu Ósýnilegt verður sýnilegt.