Automatic translation by Google Translate. We can not guarantee that it is accurate.

Til baka

Rafstöðin

Elliðaárstöð – 1921

Elliðaárstöð var tekin í notkun árið 1921 og er í hópi fallegustu bygginga í Reykjavík. Að utan er stöðin stílhrein, með rauðu bárujárnsþaki og bogadregnum gluggum, og hafa ófáir gestir á orði að hún minni helst á kirkju. Þegar inn er komið blasir við stórglæsilegur vélasalur, eins og þeir þekkja sem skoðað hafa.

Fyrsta rafstöðin í Reykjavík

Elliðaárstöð var tekin í notkun árið 1921 og með tilkomu hennar fjórfaldaðist rafafl í landinu. Rafveitan var vígð þann 27. júní 1921 og opnuð til almennra afnota af hans hátign Kristjáni konungi X. og Alexandrinu drottningu. Samtímis rafstöðinni var byggt íbúðarhús fyrir rafstöðvarstjórann og skömmu síðar hlaða og fjós með áfastri smiðju. Tveir verkfræðingar sáu um byggingaframkvæmdirnar við rafstöðina, Aage Broager Christensen og Guðmundur Hlíðdal. Að öllum líkindum teiknaði Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, stöðvarhúsið. Árið 1933 var byggð viðbygging við vesturgafl hússins. Húsið er teiknað í látlausum, nýklassískum stíl með stórum bogadregnum gluggum og allháu risi. Innandyra var húsið að mestu leyti stór, fallegur salur þar sem vélasamstæður virkjunarinnar voru.

Elliðaárstöð lýsti í upphafi upp hálfa Reykjavík

Á fyrsta ári raforkuvinnslu í Elliðaárdal nægði raforkan úr Elliðaárstöð til að knýja helming raflýsingar í Reykjavík. Raforkuþörf jókst jafnt og þétt og þegar stærri virkjanir í Soginu og Búrfellsvirkjun voru komnar í notkun var orkan í Elliðaánum notuð þegar raforkuþörf var mikil, líkt og á veturna.

Orkunotkun hefur stórlega aukist

Í Elliðaárstöð voru framleidd 3,5 MW af raforku og myndi það í dag nægja til að knýja áfram 3500 heimili í eina klukkustund.

Raforka framleidd í nær 100 ár

Rafstöðin í Elliðaárdal var tekin í notkun sumarið 1921. Eldri aðfallpípa virkjunarinnar var tekin úr notkun árið 1964 og var þá talin ónýt. Voru báðar pípurnar fjarlægðar árið 1978 og ný pípa lögð í þeirra stað. Sú pípa brast árið 1998 og aftur árið 2013. Ljóst var að endurnýja þyrfti pípuna í kostnaðarsamri aðgerð og var því ákveðið að stöðin myndi ljúka hlutverki sínu sem raforkuver.

Nýtt hlutverk Elliðaárstöðvar

Í dag hefur Rafstöðin fengið nýtt hlutverk. Í stað þess að framleiða raforku eru gestir og skólahópar fræddir um orku og auðlindir og er lögð áhersla á að virkja sköpunarkraftinn og hugvitið.

Aðrar fréttir