Í árslok 1919 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að láta reisa 1000 hestafla virkjun við Elliðaárnar. Til að sjá um framkvæmd verksins voru fengnir verkfræðingarnir Aage Broager Christensen og Guðmundur Hlíðdal, en ekki er vitað hver teiknaði sjálft stöðvarhúsið. Auk þess var Steingrímur Jónsson rafmagnsverkfræðingur ráðinn til að hafa umsjón með innlögnum í hús bæjarbúa. Hann var síðan ráðinn rafmagnsstjóri í júní 1921, en fyrsti stöðvarstjóri Elliðaárstöðvarinnar var Ágúst Guðmundsson. Framkvæmdum við virkjunina lauk á vormánuðum 1921 og var stöðin vígð hinn 27. júní 1921.
Rafmagnið var leitt með ofanjarðarlínu í aðveitustöð á Skólavörðuholti, sem þá var í útjaðri bæjarins. Þaðan var raforkunni dreift í neðanjarðarleiðslum til átta spennibreytistöðva í bænum. Þær voru á Lækjartorgi, við Bókhlöðustíg, við Herkastalann, tvær við Vesturgötu, við Smiðjustíg, við Klapparstíg og við Vitastíg. Þrjár þessara spennistöðva hafa nú verið friðaðar, spennistöðin við Bókhlöðustíg, neðst á Vesturgötu og við Klapparstíg.
Byrjað var að tengja rafmagn við íbúðarhús í Reykjavík sumarið 1921 og í lok ársins höfðu alls 45% húsa í bænum verið tengd.
Húsþyrpingin sem heild, það er rafstöðin, upphaflega straumskiptistöðin, íbúðarhús rafstöðvarstjórans, smiðjan, fjósið og hlaðan, er ótvírætt ein hin mikilvægasta í menningar- og byggingasögu Reykjavíkur.
Elliðaárstöð – 1921
Elliðaárstöð var tekin í notkun árið 1921 og er í hópi fallegustu bygginga í Reykjavík. Að utan er stöðin stílhrein, með rauðu bárujárnsþaki og bogadregnum gluggum, og hafa ófáir gestir á orði að hún minni helst á kirkju. Þegar inn er komið blasir við stórglæsilegur vélasalur, eins og þeir þekkja sem skoðað hafa.
Elliðaárstöð var tekin í notkun árið 1921 og með tilkomu hennar fjórfaldaðist rafafl í landinu. Rafveitan var vígð þann 27. júní 1921 og opnuð til almennra afnota af hans hátign Kristjáni konungi X. og Alexandrinu drottningu. Samtímis rafstöðinni var byggt íbúðarhús fyrir rafstöðvarstjórann og skömmu síðar hlaða og fjós með áfastri smiðju. Tveir verkfræðingar sáu um byggingaframkvæmdirnar við rafstöðina, Aage Broager Christensen og Guðmundur Hlíðdal. Að öllum líkindum teiknaði Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, stöðvarhúsið. Árið 1933 var byggð viðbygging við vesturgafl hússins. Húsið er teiknað í látlausum, nýklassískum stíl með stórum bogadregnum gluggum og allháu risi. Innandyra var húsið að mestu leyti stór, fallegur salur þar sem vélasamstæður virkjunarinnar voru.
Stöðvarstjórahúsið – 1921
Íbúðarhús fyrir rafstöðvarstjóra var byggt samtímis Elliðaárstöð. Fyrsti stöðvarstjóri Elliðaárstöðvar, Ágúst Guðmundsson og kona hans Sigríður Pálsdóttir, bjuggu í stöðvarstjórahúsinu ásamt tveimur öðrum fjölskyldum. Á þessum tíma var Elliðaárdalurinn sveit og nauðsynlegt að þeir sem störfuðu í Elliðaárstöð hefðu búsetu í nágrenninu. Fljótlega voru byggð fleiri hús við Rafstöðvarveg. Aðalsteinn Gudjohnsen rafveitustjóri bjó einnig í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Árið 2000 var hætt að nota húsið sem íbúðarhús en farið að nota það sem funda- og móttökuhús OR.
Hönnuðir voru verkfæðingarnir Aage Broager Christensen og Guðmundur Hlíðdal.
Stöðvarstjórahúsið er nú Heimili veitna þar sem leyndardómar veitnanna eru afhjúpaðir. Gestir fá að sjá og kynnast því hvernig allar veiturnar þræðast inn í og í gegnum veggi og gólf hússins og síðan út í hið stóra, niðurgrafna kerfi lagnanna.
Fjós, smiðja og hlaða – 1921
Fyrsti stöðvarstjórinn var með kúabúskap í Elliðaárdalnum og því var byggt fjós um leið og stöðvarstjórahús var reist og skömmu síðar smiðja sem áföst var við fjósið. Hlaðan var byggð árið 1932 sem bráðabirgðaskýli.
Hönnuðir voru verkfræðingarnir Aage Broager Christensen og Guðmundur Hlíðdal.
Fjósið, smiðjan og hlaðan munu hýsa kaffihús og móttöku í hjarta Elliðaárstöðvar þar sem boðið verður upp á rjúkandi kaffi og kruðerí.
Geymsluhús
Árið 1998 var óeinangruðu geymsluhúsi komið fyrir á svæðinu, þar verður komið fyrir salernisaðstöðu fyrir gesti dalsins.
Straumskiptistöðin – 1937
Straumskiptistöðin er sögulegt og friðað mannvirki sem byggt var til að taka á móti raforku frá Ljósafossstöð í Sogi áður en það fór inn á dreifikerfið. Árið 1943 var byggt við húsið og 9 árum síðar var reistur turn til viðgerða fyrir háspennuspenna. Straumskiptistöðin gnæfir yfir eldri byggingum svæðisins og turnarnir tveir gefa henni sérstakt yfirbragð.
Sigurður Guðmundsson er arkítekt hússins. Það má segja að hann hafi verið tengiliðurinn milli ólíkra viðhorfa í íslenskri húsagerðarlist á fyrri helmingi aldarinnar þar sem hann var í senn síðasti fulltrúi hinnar klassísku hefðar og frumkvöðull nýrrar húsagerðar í anda Bauhaus stefnunnar. Straumskiptistöðin er gott dæmi um íslenskan iðnaðararkitektúr í anda fúnksjónalismans.
Verið er að gera upp Straumskiptistöðina og fær hún því nýtt hlutverk. Með því að taka hana í notkun á ný verður til enn meira líf á svæðinu og byggingin verður lifandi suðupottur hugmynda, fræðslu, menningar og nýsköpunar. Straumskiptistöðin mun m.a. hýsa gestastofu og sýningarrými fyrir Elliðaárstöð og fyrirtæki Orkuveitu samstæðunnar. Þar sem tímabundnar sýningar verða settar upp um þær náttúruauðlindir sem er að finna í dalnum, vísindin og áhrif hagnýtingar á samfélagið í gegnum tíðina og til framtíðar.