Jólakúluvarp!
Nú fer að líða að jólum og tilvalið að stytta stundir með því að prófa nýja vísinda-föndur-tilraun.
Hvað þarf: stórar íspinnastangir, lok af plastflösku, gúmmíteygjur, pappír, skæri og límstifti. Það getur verið gaman að mála stangirnar í flottum jólalitum til að gera tilraunina enn jólalegri!
Hvað á að gera: staflið að minnsta kosti átta stöngum saman og festið saman með gúmmíteygjum á báðum endum. Festið tvær stangir á annan endann með teygjum og límið flöskutappann á lausa endann á annarri þeirra. Stingið svo annarri inn í staflann fyrir ofan neðstu stöngina þannig að tappinn snúi upp. Að lokum þarf að festa saman miðjuna með einni teygju í viðbót og þá er jólakúluvarpan tilbúin! Næst þarf að velja hverju á að skjóta upp í loftið. Ef þið hafið aðgang að prentara er tilvalið að prenta út skjalið að neðan og búa til ykkar eigin Elliðaárstöðvar jólakúlu sem hægt er að láta fljúga. Til að einfalda er einnig hægt að notast við bómullahnoðra, einsskonar snjóbolta, til að skjóta upp í loft. Þegar jólakúlan er tilbúin þarf að setja hana í tappann, halda við neðra prikið og þrýsta því efra niður og svo sleppa!
Tilraunin framkvæmd.
Jólakúlan
Til þess að hægt sé að skjóta úr jólakúluvörpunni þarf að prenta út litla útgáfu af jólakúlunni. Það er gert með því að prenta fjórar eða sex á eina blaðsíðu eftir því hversu lítil jólakúlan á að vera. Einnig er hægt að prenta hana í fullri stærð, setja band í gegn og hengja kúluna á jólatréð!
Til þess að búa til jólakúluna þarf að klippa út formið og brjóta uppá allar heilu svörtu línurnar. Þá er hægt að líma litlu bútana sem eru merktir með punktalínum aftan við skreyttu bútana.
JólakúlanHvað er að gerast?
Allir hlutir í heiminum hafa orku meira að segja prikið í jólakúluvörpunni. Þegar prikið er kyrrt hefur það stöðuorku, þegar prikinu er ýtt niður eykst stöðuorkan í prikinu. Stöðuorka er orka sem hlutir hafa þegar þeir eru kyrrir en geta hreyfst. Ef bolta er haldið fyrir ofan gólf þá hefur boltinn stöðuorku en þegar honum er sleppt, fellur hann til jarðar og stöðuorkan breytist í hreyfiorku. Þetta er nákvæmlega það sem gerist við prikið þegar því er sleppt, stöðuorkan breytist í hreyfiorku og prikið hreyfist upp. Það sama gildir um jólakúluna sem situr í vörpunni hún hefur stöðuorku þegar prikinu er ýtt niður sem breytist í hreyfiorku þegar því er sleppt. Þar sem jólakúlan er ekki föst við neitt skýst hún út í loftið.