Ósýnilegt verður sýnilegt
-
Aðgangur ókeypis
-
7.maí 2023
-
13:00
-
Sjá á korti
Leiðsögn um Heimili veitna
Á HönnunarMars mun Elliðaárstöð bjóða upp á fjölskylduviðburði þar sem leyndardómar veitnanna verða afhjúpaðir og gestir kynnast lífæðum samfélagsins og þeim lífsgæðum sem þær veita okkur. Boðið verður upp á leiðsögn kl.13:00 í nýuppgerðu Stöðvastjórahúsi Elliðaárstöðvar sem mun fá nafnið Heimili veitna. Hönnunarteymið Terta mun leiða gesti um mismunandi herbergi heimilins og segja frá hönnunarferlinu og orkunni sem leynist innan veggja og undir gólfum.
Stöðvarstjórahúsið eða Heimili veitna var byggt 1921 sama ár og rafstöðin og var íbúðarhús fyrir rafstöðvarstjóra. Fyrsti stöðvarstjóri Elliðaárstöðvar, Ágúst Guðmundsson og Sigríður Pálsdóttir kona hans, voru ásamt tveimur öðrum fjölskyldum fyrstu íbúar hússins. Á þessum tíma var Elliðaárdalurinn sveit og nauðsynlegt að þeir sem störfuðu í Elliðaárstöð hefðu búsetu í nágrenninu. Í staðinn fyrir að hýsa starfsfólk Elliðaárstöðvar mun húsið nú hýsa fjölbreytta starfsemi þar sem áhersla verður lögð á fræðslu og miðlun vísinda.
Nýsköpunarsmiðja fyrir fjölskyldur
Í Gestastofu Elliðaárstöðvar verður áhersla lögð á skapandi fræðslu. Kl. 14:00 mun Margrét Hugadóttir vísindamiðlari Elliðaárstöðvar leiða nýsköpunarsmiðju fyrir börn og fjölskyldur. Þátttakendum er boðið að taka þátt í hönnunaráskorun sem tengist vatni. Þar reynir á sköpunarkraftinn, lausnaleit og vísindalæsi. Á neðri hæð Gestastofunnar verða nýir STRAUMAR Elliðaárstöðvar í fræðslu kynntir. Mikilvægi hönnunar í námsefnisgerð er dregin fram í sjónarljósið.
Leiðarljós Elliðaárstöðvar í fræðslu er STRAUMUR, betur þekkt sem STREAM education, en slík nálgun samþættir vísindi (e. science), tæknigreinar (e. technology), skemmtun (e. recreation), verkfræði (e. engineering), listir (e. arts) og stærðfræði (e. mathematics). Áhersla er lögð á samvinnu, lausnaleit, hönnunarhugsun og nýsköpun í fjölbreyttum verkefnum.
MEGAWHAT!?
Á útisvæði Elliðárstöðvar mun nýsirkusinn Hringleikur bjóða gestum og gangandi kl:15:00 upp á vísinda-sirkussmiðju MEGAWHAT!? Smiðjan er þróuð í samstarfi sirkuslistafólks og vísindafólks OR. Þar fá börn og fullorðnir að leika og skapa með sérstökum sirkusáhöldum undir handleiðslu sirkuslistafólks, með það að markmiði að draga fram tengsl sköpunar í sirkuslistum við lögmál náttúrunnar.
Elliðaárstöðin opin gestum og gangandi
Milli 13:00-16:00 er gestum boðið til útiveru í hinu fagra umhverfi Elliðaárstöðvar. Rafstöðin verður opin gestum og gangandi, „pop-up“ kaffihús verður á svæðinu, hægt verður að njóta fallegrar hönnunar og náttúru dalsins í hljóðleiðsögn um Hólmann eða slakað á í hengirúmum í skrúðgarðinum og hlustað á náttúruhljóð Elliðaárdals. Ef veður leyfir verður vatnsleikjagarðurinn einnig opinn þar sem börn jafnt sem fullorðnir geta buslað saman.
Hlökkum til að sjá ykkur!