Tækifæri til veitingarekskturs á vinsælum áfangastað
Elliðaárstöð, staðsett í náttúruperlunni Elliðaárdal, auglýsir eftir áhugasömum aðilum til að leigja aðstöðu fyrir veitingarþjónustu á svæðinu. Svæðið samanstendur af sögulegum byggingum, þar á meðal fjósi, smiðju og hlöðu, sem voru upphaflega reist á árunum 1921-1933. Þessar friðlýstu byggingar hafa fengið nýtt líf og eru nú tilbúnar að taka á móti veitingarekstri, með vel innréttuð veitingarými sem eru útbúin til að skapa einstaka upplifun.
Fjölskylduvænt samfélag
Veitingastaðurinn mun starfa allan ársins hring og er ætlað að þjóna fjölbreyttum hópi gesta – allt frá ævintýragjörnu útivistarfólki til nærsamfélagsins og fjölskyldna. Elliðaárdalurinn er náttúruperla og fjölsóttasta útivistasvæðið í Reykjavík. Dalurinn á sér ríka sögu og fjölbreytt útivist er stunduð þar allan ársins hring. Fjölmenn íbúahverfi liggja að dalnum; Árbær, Breiðholt, Fossvogur og Vogabyggð er að rísa ásamt því íbúabyggð á Ártúnshöfða áformuð. Í bakgarði veitingastaðarins er vatns- og leiksvæði, sem gerir staðinn kjörinn fyrir fjölskyldur. Tenging staðarins við þetta fallega náttúrusvæði og fjölbreytt mannlíf býður upp á einstakt tækifæri til að skapa líflegt, hlýlegt og fjölskylduvænt samfélag.
Fjölbreytt dagskrá og menningarlíf í Elliðaárstöð
Elliðaárstöð hefur, á skömmum tíma, fest sig í sessi sem nýr áfangastaður þar sem orka, náttúra og menning mætast. Til að auka og þjónusta mannlíf í dalnum er staðið fyrir fjölda viðburða allan ársins hring, en auk þess er boðið upp á vísindamiðlun og fjölbreytta fræðsludagskrá fyrir fróðleiksfúsa á öllu aldri. Árið 2024 hafa yfir 150.000 gestir lagt leið sína í Elliðaárstöð og yfir 50 viðburðir hafa verið haldnir í samstarfi við skapandi aðila úr listum, vísindum, íþróttum og útivist. Elliðaárstöð tekur jafnframt þátt í menningarhátíðum borgarinnar, eins og Vetrarhátíð, Safnanótt, Barnamenningarhátíð og HönnunarMars.
Vertu hluti af framtíðinni í Elliðaárdal
Í lok nóvember er áformað að ljúka endurnýjun á stærsta húsi svæðisins; Straumskiptistöð. Í þeirri starfssemi verður gestastofa, fundarrými, fundarsalir, fræðslu- og viðburðarými. Þar verður tekið vel á móti gestum Elliðaárstöðvar og viðskiptavinum Orkuveitunnar með upplýsingum og fræðslu um orkuna, veiturnar og Elliðaárdalinn. Boðið verður m.a. fjölbreytta viðburði, sýningar og fræðslu um orkulindirnar, nýtingu náttúrugæða, tæknina, söguna og framtíðarlausnir.
Veitingastaður verður í flokki II tegund c. Veitingastofa með vínveitingaleyfi og léttum mat í hádeginu og á kvöldin, ásamt bakkelsi og góðu kaffi. Fjöldi starfsmanna er 2-3 og fjöldi gesta að hámarki 55. Á rishæð smiðju er aðstaða fyrir starfsfólk auk þurrvörulagers og geymslu.
Markmið Elliðaárstöðvar með útleigu
- Styðja við Elliðaárstöð sem áfangastað orku og náttúru
- Staðurinn sé í samræmi við ímynd Elliðaárstöðvar og tengist aðdráttarafli útisvæðisins
- Laða að breiðan og fjölbreyttan hóp gesta
- Staðurinn sé fjölskylduvænn og bjóði upp á góða þjónustu og vandaðar veitingar allan ársins hring
Mat tilboða
Umsóknir verða metnar á grundvelli eftirfarandi þátta:
- Fyrirhuguðum veitingarekstri og vöruframboði
- Reynslu umsækjenda af veitingarekstri eða skyldri þjónustu
- Fjölskylduvænn staður með góðri þjónustu
- Staðurinn endurspegli hugmyndafræði Elliðaárstöðvar og styðji við aðra starfsemi á svæðinu
- Leigufjárhæð
Matsnefnd á vegum Orkuveitunnar mun fara yfir innsendar umsóknir. Orkuveitan og Elliðaárstöð áskilja sér rétt til að taka ákjósanlegasta tilboði að mati dómnefndar eða hafna þeim öllum.
Gert er ráð fyrir því að fyrsti leigusamningur taki gildi 1. desember 2024 og gildi til 5 ára með möguleika á framlengingu í allt að þrjú ár til viðbótar, að fengnu samþykki beggja. Samningsaðilum er heimilt að segja upp samningnum með eins árs fyrirvara, þó eigi fyrr en 1. desember 2027.
Þann 9. október kl. 17 gefst áhugasömum tækifæri til að koma í Elliðaárstöð og fá að skoða aðstöðuna.
Umsóknir
Umsóknir skulu sendar á birna.bragadottir(hjá)orkuveitan.is. með upplýsingum um: nafn, kennitölu, nafn tengiliðs, símanúmer og netfang tengiliðs.
Skilafrestur umsókna er til og með 25. október 2024.
Fylgigögn
Teikningar af húsnæði (1)
Teikningar af húsnæði (2)
Kynning á húsnæði og svæðinu