Við hlökkum til að bjóða gesti dalsins velkomna á nýjan veitingastað í Elliðaárstöð í lok júní sem mun fá nafnið Á Bístró.
Á Bístró dregur nafn sitt af Elliðaám en staðurinn opnar í hjarta dalsins í sumar. Hugmyndin er að skapa fallegan og afslappaðan áfangastað þar sem öll geta fengið mat og drykk við hæfi. Matseðillinn mun endurspegla umhverfið og kapp lagt á að vinna úr árstíðabundnu íslensku hráefni.
Að baki Á standa Andrés Bragason matreiðslumeistari og Auður Mikaelsdóttir framreiðslumeistari :
“Við erum ótrúlega spennt að kynnast gestum dalsins og okkar góðu nágrönnum en mörg hverfi liggja að Elliðaám. Það er svo mikill innblástur fólgin í náttúrunni og öllu fólkinu sem streymir hér um dalinn og stundar útivist og hreyfingu, laxveiði, leikur sér og hvað annað. Okkur dreymir um að hér takist að skapa saman líflegan vettvang og skemmtilegan stað fyrir öll að koma við, hittast og nærast”.