Veitingarekstur við Elliðaárstöð

Elliðaárstöð Orkuveitu Reykjavíkur er nýr áfangastaður í hjarta náttúruperlunnar Elliðaárdals sem nú er að taka á sig nýja og breytta mynd. Nýverið fagnaði Elliðaárstöðin (gamla rafstöðin) aldar afmæli en ásamt vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu markaði hún grunninn að lífsgæðum borgarbúa og átti ríkan þátt í því að Reykjavík yrði nútímaborg.

Elliðaárdalurinn er náttúruperla og eitt fjölsóttasta útivistasvæðið í Reykjavík. Dalurinn á sér ríka sögu og fjölbreytt útivist er stunduð þar allan ársins hring. Fjölmenn íbúahverfi liggja að dalnum; Árbær, Breiðholt, Fossvogur og Vogabyggð er að rísa ásamt því íbúabyggð á Ártúnshöfða áformuð.

Elliðaárstöð vill auka mannlíf og dalnum og stendur fyrir fjölda viðburða sem hafa það m.a. að markmiði að mennta skólafólk og almenning um orku og vísindi ásamt því að tengjast fjölmörgum viðburðum á vegum borgarinnar og annarra.

Elliðaárstöð auglýsir eftir áhugasömum aðilum til að taka aðstöðu til veitingarþjónustu á leigu  í húsaþyrpingu við Elliðaárstöð. Um er að ræða fjós, smiðju og hlöðu byggð á árunum 1921-1933 og voru húsin friðlýst samkvæmt lögum um húsafriðun árið 2012. Svæðið er skjólsælt með frábæru útisvæði og leiksvæði. Opnunartími verður allan ársins hring og er ætlað að þjónusta gesti Elliðaárstöðvar, gesti dalsins, nágranna og fjölmarga útivistarhópa og náttúruunnendur sem nýta sér dalinn daglega.

Veitingastaður verður í flokki II tegund c. Veitingastofa með vínveitingaleyfi og léttum mat (samlokur, súpur og salöt) í hádeginu og á kvöldin, ásamt bakkelsi og góðu kaffi. Ekki verður full borðþjónusta. Fjöldi starfsmanna er 2-3 og fjöldi gesta að hámarki 55. Á rishæð smiðju er aðstaða fyrir starfsfólk auk þurrvörulagers og geymslu. Gert er ráð fyrir þremur snyrtingum fyrir gesti veitingahúss. Snyrting fyrir hreyfihamlaða er staðsett í smiðju og gestastofu.

Markmið Elliðaárstöðvar með útleigu

  • Styðja við Elliðaárstöð sem lifandi áfangastað fyrir gesti og unnendur dalsins
  • Staðurinn sé í samræmi við ímynd Elliðaárstöðvar og tengist á einhvern hátt umhverfi sínu eða sögu staðarins
  • Laða að breiðan og fjölbreyttan hóp gesta
  • Staðurinn sé fjölskylduvænn og bjóði upp á góða þjónustu og vandaðar veitingar allan ársins hring


Mat tilboða

Umsóknir verða metnar á grundvelli eftirfarandi þátta:

  • Fyrirhuguðum veitingarekstri og vöruframboði
  • Reynslu umsækjenda af veitingarekstri eða skyldri þjónustu
  • Fjölskylduvænn staður með góðri þjónustu
  • Staðurinn endurspegli hugmyndafræði Elliðaárstöðvar og styðji við aðra starfsemi á svæðinu
  • Leigufjárhæð

Matsnefnd á vegum Orkuveitu Reykjavíkur mun fara yfir innsendar umsóknir.

Orkuveita Reykjavíkur og Elliðaárstöð áskilja sér rétt til að taka ákjósanlegasta tilboði að mati dómnefndar eða hafna þeim öllum.

Gert er ráð fyrir því að fyrsti leigusamningur taki gildi 1. júni 2023 og gildi til 5 ára með möguleika á framlengingu í allt að þrjú ár til viðbótar, að fengnu samþykki beggja.

Samningsaðilum er heimilt að segja upp samningnum með eins árs fyrirvara, þó eigi fyrr en 1. september 2024.

Þann 31. janúar kl. 10:00 gefst áhugasömum tækifæri til að koma í Elliðaárstöð og fá kynningu á aðstöðunni.

Umsóknir skulu sendar á birnab(hjá)or.is. með upplýsingum um:  nafn, kennitölu, nafn tengiliðs, símanúmer og netfang tengiliðs.

Skilafrestur umsókna er til og með 10. febrúar 2023.

Fylgigögn
Teikningar af húsnæði (1)
Teikningar af húsnæði (2)
Kynning á húsnæði og svæðinu